Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja í hættu? Ekki skert þegar engir samningar eru í gildi

svn logoForsvarsmenn Síldarvinnslunnar óttast að rafvæðing fiskimjölsverksmiðja í hættu þar sem þær geti ekki reitt sig á orku af markaði. Forstjóri Landsvirkjunar segir orkuna til staðar nú en samningana vanti.

Í nýlegum pistli á vef Síldarvinnslunnar er bent á að stjórnvöld hafi fyrir um tuttugu árum hvatt til rafvæðingar fiskimjölsverksmiðjanna og á henni hafi herst verulega síðustu fimm ár.

Umhverfisvernd hafi verið ein helstu rökin þar sem olíu hafi verið skipt út og þar með dregið verulega út útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Auk þess hafi orkuskiptin átt að spara gjaldeyri og tryggja betri nýtingu á orku í landinu að því gefnu að hægt væri að flytja rafmagnið á milli landshluta.

Ráðist hafi verið í rafvæðinguna með ærnum tilkostnaði en árangur náðst með um 66% samdrætti á útblæstri.

Þessi árangur sé í hættu. Í fyrsta lagi hafi samningum um orkuverð verið sagt upp og farið fram á meira en tvöföldun á taxta.

Að auki hafi heldur ekki verið hægt að anna vaxandi eftirspurn eftir orkunni. Það hafi meðal annars sést í sumar þegar Landsvirkjun boðaði skerðingar á orku til stóriðju og verksmiðjanna vegna lágrar vatnsstöðu í miðlunarlónum.

Nú sé búið að aflétta skerðingu á stóriðjunni en ekki á fiskimjölsverksmiðjunum. „Fiskimjölsverksmiðjurnar virðast vera afgangsstærð í þessu sambandi. Hvar eru nú stjórnvöld sem á sínum tíma hvöttu til rafvæðingar verksmiðjanna af umhverfisástæðum ? Er rafvæðing verksmiðjanna ef til vill unnin fyrir gíg?" segir í pistlinum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun snýst málið meðal annars um mismunandi samningsgerð. Stóriðjan er með langtímasamninga en fiskimjölsverksmiðjuarnar verið með skammtímasamninga. Bætt staða í miðlunarlónum geti hins vegar dregið allar boðaðar skerðingar til baka.

„Í erfiðum vatnsárum þá hafa gildandi raforkusamningar Landsvirkjunar við stóriðju forgang. Þannig að þegar líkur á skerðingum til stóriðju aukast, eins og gerðist í sumar, þá dregur Landsvirkjun úr framboði á nýjum samningum á skammtíma markaði. Ekki eru neinir samningar í gildi við Síldarvinnsluna og því ekki um neinar skerðingar að ræða.

Staða miðlunarlóna hefur batnað verulega á undanförnum dögum og bindur Landsvirkjun því vonir við að geta fljótlega aukið framboð á skammtímamarkaði þar með talið til Síldarvinnslunnar."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.