Matjurtarækt - Vanmetin auðlind á Austurlandi

graenmetiÓhætt er að fullyrða að óvíða á landinu er matjurtarækt stunduð í minna mæli en á Austurlandi, enda vantar mikið upp á að slík ræktun í landsfjórðungnum komist nálægt því að uppfylla vaxandi neysluþörf heima fyrir, þó svo að góðar aðstæður til slíkrar framleiðslu séu hér víða fyrir hendi.

Þetta er m.a. byggt á allviðamikilli könnun, sem nefnd á vegum umsækjanda gerði á matjurtaþörf matsölustaða í fjórðungnum sl. vor, til að átta sig á tegundum og magni matjurta, sem þá vanhagar helst um.

Meginhluti matjurta eru því aðfluttar með ærnum flutningskostnaði, sumpart frá framleiðendum syðra og/eða erlendis frá með Reykjavík sem uppskipunarhöfn.

Framfarafélag Fljótsdalshéraðs (FF), ásamt nokkrum samstarfsaðilum, sótti um og hlaut nokkurn styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands í undirbúningsverkefni, sem ber yfirskriftina „Matjurtarækt á Austurlandi," til að kanna áhuga heimaaðila á að hefja slíka ræktun.

Markmið verkefnisins er að stuðla að því að sem flestar matjurtir, sem matsölustaði á Austurlandi, einkum veitingastaði og mötuneyti, vanhagar um, verði ræktaðar í heimahéraði, auk þess að stuðla að aukinni heimaræktun matjurta almennt í hér eystra.

Markmiðinu verði náð með samstilltu átaki umsækjanda og eftirfarandi samstarfsaðila: Gróðrarstöðin Barri ehf í Fellabæ, Búnaðarsamband Austurlands, Sólskógar á Kaldá á Völlum og Hitaveita Egilsstaða og Fella.

Verkefnið byggist að verulegu leyti á nýtingu náttúrugæða í landsfjórðungnum með ræktun, fullvinnslu og markaðssetningu afurða úr héraði í samkeppni við hliðstæð aðflutt aðföng.

Mikilvægt er að undirbyggja vel slíkt frumkvöðlaverkefni, meðal annars í ljósi vaxandi fjölda erlendra ferðamanna. Í því sambandi má nefna að sjóleiðin (Norræna) er opin, auk þess sem beint flug í Egilsstaði erlendis frá, gæti einnig styrkt samkeppnisaðstöðu á þessu sviði hér eystra.

Verkefni þetta útheimtir góðan undirbúning, sem fjallað er um í umsókninni, þótt þau atriði verði ekki tíunduð hér utan þess, sem mestu máli skiptir nú í upphafi, en það er öflug kynning á verkefninu, ásamt hvatningu til að sækja námskeið í faginu, sem boðið verður upp á í kjölfar fundanna. Í því skyni verða haldnir tveir kynningarfundir, annar á Reyðarfirði og hinn á Egilsstöðum, 15. september næstkomandi og fer nánari stað- og tímasetning ásamt dagskrá hér á eftir:

Hótel Tærgesen á Reyðarfirði, klukkan 16:00 og á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan 20:00. 

Dagskrá:

  1. Inngangsorð verkefnisstjóra Matjurtaverkefnisins
  2. Kynning á verkefninu út frá eigin hugmyndum og fagþekkingu og kortlagning á fyrirhuguðum námskeiðum í matjurtarækt á Austurlandi. Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs-og endurmenntunardeildar LBHÍ, Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi.
  3. Viðhorf fulltrúa úr hópi veitingastaða á Austurlandi og væntingar þeirra til verkefnisins, auk þess, sem von er á fróðleik frá fulltrúa frá Sölufélagi Garðyrkjumanna.
  4. Umræður
Fundurinn er opinn öllu áhugafólki eystra, sem er hvatt til að taka daginn frá og mæta.

Framfarafélag Fljótsdalshéraðs og samstarfsaðilar.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.