Framkvæmdir frestast við Helgustaðanámu

helgustadanama agust14 webÓvíst að nokkuð verði úr framkvæmdum við Helgustaðanámu í sumar eftir að eina tilboðinu sem barst í þær var hafnað. Náman er á rauðum lista Umhverfisstofnunar þar sem hæpið þyki að hún geti tekið við þeim fjölda ferðamanna sem hana sækir.

Til stóð að laga aðstöðu og aðgengi við námuna í sumar, meðal annars með göngustígum og salernishúsi.

Verkið var boðið út en eigna- skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar ákvað á síðasta fundi sínum að hafna eina tilboðinu sem barst enda var það 51,8% yfir kostnaðaráætlun.

Helgustaðanáma er á rauðum lista Umhverfisstofnunar yfir svæði sem eru í verulegri hættu að tapa verndargildi sínu eða hafa tapað því að hluta til.

Náman er ein frægasta silfurbergsnáma heims og dregur sem slík að sér mikinn fjölda ferðamanna ár hvert. Hún var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975.

Í samantekt Umhverfisstofnunar segir að svæðið hafi „enga innviði" til að taka á móti miklum fjölda ferðamanna. Þá er einnig varað við að ekkert eftirlit sé með námunni og silfurbergskristallarnir með öllu óvarðir. Óheimilt er að taka steina úr námunni en reglulega berast hins vegar fréttir um slíkt.

Deiliskipulag hefur verið unnið fyrir svæðið en eftir er að fylgja því eftir með framkvæmdum sem minnki álag á svæðinu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.