Ný lög um niðurgreiðslu raforku eiga að jafna stöðu dreifbýlisins

raflinur skriddalForstjóri RARIK telur að mikill árangur hafi náðst í jöfnun aðstöðumunar dreifbýlis og þéttbýlis með samþykkt nýrra laga um jöfnun flutningskostnaðar raforku í vor. Formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs segir erfitt hafa verið að sitja undir þeirri mismunun sem var.

Þann 1. apríl síðastliðinn var lagt jöfnunargjald á viðskiptavini allra dreifingaraðila raforku, 0,2 kr/kWst sem væntanlega hækkar í 0,3 kr/kWst á næsta ári.

Gjaldinu er ætlað að koma á móts við niðurgreiðslu á dreifingarkostnaði í dreifbýli en í vor hækkaði svokallað dreifbýlisframlag á forgangsorku til notenda RARIK úr 1,44 kr/kWst í 2,14 kr/kWst. Um leið voru niðurgreiðslur til rafhitunar auknar.

Miðað við tölur í frumvarpinu ætti þetta að lækka raforkukostnað meðaltalsnotenda hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða um rúmar níu þúsund krónur á ári. Á móti kemur hækkum upp á tæpar 2000 krónur á aðra notendur, þar á meðal hjá Rafmagnsveitu Reyðarfjarðar.

„Þegar ný raforkulög tóku gildi árið 2005 völdu bæði RARIK og Orkubú Vestfjarða að vera með sitt hvorar gjaldskrárnar í þéttbýli og dreifbýli, meðal annars því ekki mátti jafna kostnað til eins kaupanda. Það mátti hins vegar jafna til dreifbýlis," útskýrir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK.

„Við höfum lengi talað fyrir því að verðjafna þyrfti með einhverjum hætti til þeirra 10% landsmanna sem býr í dreifbýlinu. Það má ekki jafna lengra en að dýrustu þéttbýlisveitu en við teljum þetta mikinn árangur."

Frá árinu 2005 hefur rafmagn í dreifbýli verið niðurgreitt með 240 milljóna króna framlagi af fjárlögum sem hækkað var upp í 544 milljónir í fyrra. „Við hefðum auðvitað helst kosið að þetta væri gert með skattfé en er í þess stað gert með gjaldi á raforkudreifingu."

Sveitarstjórnarmenn hafa lengi barist fyrir jafnari raforkukostnaði og nú er að sjá að þeirra barátta hafi skilað árangri.

„Þetta hefur verið syndandi óréttlætismál og óþolandi fyrir okkur sveitarstjórnarmenn, ekki síst í okkar stóra sveitarfélagi. Við höfum ekki getað setið þegjandi undir þessari gríðarlegu mismunum," segir Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs.

„Gleymum því ekki að mest öll raforkan er framleidd í dreifbýlinu og flutt yfir dreifbýlið til þéttbýlisins. Dreifbýlið hefur hins vegar borgað 74,7% hærra verð fyrir dreifinguna heldur en þéttbýlið og raforkan sjálf kostað 57,7% meira. Þetta er eins og að vera önnur þjóð á helmingi hærra raforkuverði."

Gert er ráð fyrir að breytingin gangi að fullu í gegn árið 2016 og þá falli 240 milljóna framlag ríkissjóðs til jöfnunarinnar niður.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.