„Barnalegt að gera utanríkisráðherra ábyrgan fyrir hagsmunum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað"

GI i turninumUtanríkismálanefnd Alþingis virðist ekki vera á þeirri skoðun að hverfa frá viðskiptaþvingunum gegn Rússum í ótta við að það komi niður á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir viðskiptabann ekki uppbyggilega leið til að leysa ágreiningsmál.

„Gunnþór Ingvason talar eins og hann tali beint frá bæ sem eitt sinn var kallaður Litla-Moskva og býður hlutleysi í þessu máli sem mér finnst býsna ógeðfellt.

Hlutleysi í þessu máli er ekki til. Eins og ágætur maður sagði eitt sinn þá er aðeins til eitt hlutleysi og það er hlutleysi gleðikonunnar."

Þessi orð lét Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og annar varaformaður utanríkisnefndar Alþingis, falla í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær.

Umræðuefnið var þátttaka Íslands í viðskiptabanni gegn Rússlandi sem sett var á fyrir rúmu ári eftir innrás ríkisins í Úkraínu og innlimun Krímskaga en slíkt hefur ekki gerst í Evrópu eftir seinna stríð. Einkum voru það þó orð Gunnþórs Ingvasonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, sem vöktu þessu viðbrögð en hann hvatti í grein á vef fyrirtækisins í gær gær i til þess að Íslendingar lýstu yfir hlutleysi og reyndu að vinda ofan af stuðningi Íslands við þvinganirnar. Gunnþórs Ingvasonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, sem vöktu þessu viðbrögð en hann hvatti í grein á vef fyrirtækisins í gær gær i til þess að Íslendingar lýstu yfir hlutleysi og reyndu að vinda ofan af stuðningi Íslands við þvinganirnar.

Rússar hafa svarað með innflutningsbanni á afurðir frá ýmsum löndum en Ísland hefur til þessa sloppið hjá því. Gunnþór varaði við að miklir hagsmunir væru í húfi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, meðal annars Síldarvinnsluna sem selur stóran hluta sinna afurða á Rússlandsmarkað.

Hverju skilar viðskiptabann?

Í greininni segir Gunnþór að viðskiptaþvinganir hafi takmörkuð áhrif og bitni helst á þeim sem síst skyldi, almennum borgurum. Það er sama lína og birtist í grein sem Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Fiskimiða á Eskifirði og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, skrifaði á vef samtakanna í gær.

Þar rekur hann áralöng samskipti Íslendinga og Rússa, einkum í sjávarútvegi og hvernig sjávarbyggðir vítt og breitt um landið hafi byggt upp starfsemi sína í kringum þau viðskipti.

„Viðskiptabann er ekki uppbyggileg leið til að leysa ágreiningsmál. Það hefur sannast æ ofan í æ að frjáls viðskipti milli landa greiða fyrir bættum samskiptum milli þjóða og eru grunnur að gagnkvæmum skilningi og uppbyggilegum viðræðum þjóða í milli.

Viðskiptabannið hefur ekki orðið til þess að bæta ástandið í Úkraínu og það eru engin sýnileg merki þess að framlenging þeirra muni skila árangri," skrifar Jens Garðar og bætir við að áralöng viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Kúbu og Íran hafi engu skilað.

„Uppbyggileg samskipti sem byggjast á gagnkvæmri virðingu hafa margsannað gildi sitt. Íslenskur sjávarútvegur mun því styðja áframhaldandi viðskipti við Rússland enda mikilvægt að rækta gömul vinasambönd þó vindar blási í heimsmálunum."

Spurning hvað er til sölu?

En utanríkismálanefnd Alþingis virðist standa föst á sínu. Annar nefndarmaður, Silja Dögg Gunnarsdóttir úr Framsóknarflokki, sagði nefndarmenn hafa verið einhuga um það á fundi sínum í gær að Ísland stæði við sínar alþjóðlegu skuldbindingar.

Þar sem viðskiptabannið væri meira en ársgamalt hefðu fyrirtækin frekar átt að huga að eigin aðgerðum. „Við erum ekki enn komin á listann en líkurnar aukast dag frá degi. Þetta hefur vofað yfir í ár svo þetta ætti ekki að koma mönnum á óvart. Menn hefðu átt að hugsa fram í tímann og gera plan B."

Áætlað er að Íslendingar verði af tekjum upp á 15-40 milljarða króna ákveði Rússar að loka fyrir innflutning fisks. „Þetta eru stórar tölur sem skipta verulegu máli fyrir þessi fyrirtæki og þar með íslenskt þjóðarbú en það er spurning hvað er til sölu," sagði Vilhjálmur. „Það er barnalegt að gera utanríkisráðherra ábyrgan fyrir hagsmunum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað."

Þrír þingmenn Norðausturkjördæmis eru varamenn í utanríkismálanefndinni, þau Valgerður Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir og Höskuldur Þórhallsson.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.