Kviknaði í gamalli og yfirgefinni rafstöð: Eftirsjá í sögulegum minjum

fossgerdi bruni 21072015 prinsAflögð rafstöð við bæinn Fossgerði á Berufjarðarströnd skemmdist illa í eldi seinni partinn í gær. Slökkvistarfið gekk vel en eldsupptök eru óljós. Landeigandi segir stefnt að því að gera stöðina upp á nýtt.

„Það var greinilega búið að krauma í kofanum í einhvern tíma þegar við komum," segir Kári Snær Valtingojer, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi.

Tilkynning um eldinn barst um klukkan 18:20 í gærkvöldi. Fyrst var ekki ljóst hvort eldur væri í rafstöðinni, sem er niður í gili skammt frá íbúðarhúsinu, eða húsinu sjálfu.

Nágrannar könnuðu því aðstæður á meðan beðið var eftir slökkviliðinu. Kári segir slökkvistarfið hafa gengið vel en rafstöðvarkofinn sé illa farinn.

Eigendum þykir nokkur eftirsjá í sögulegum minjum. „Afi minn, Þorleifur Sigurðsson, byggði þessa rafstöð ásamt nágranna sínum Bjartmari á Steinaborg árið 1929 af mikilli framsýni," segir Flosi Eiríksson en hann á Fossgerði í dag ásamt fimm systkinum sínum og móðursystur.

„Rafstöðin var keyrð fram til ársins 1974 þegar samveiturafmagnið kom og amma, Stefanía Þorvaldsdóttir, þurfti að hætta að nota stöðina. Ég man aðeins eftir henni í gangi og því þegar þurfti að fara niður í stöð kvölds og morgna og stilla hana."

Flosi og hans fjölskylda hafa gert upp íbúðarhúsið í þeirri mynd sem það var þegar afi hans lést árið 1957. Hann segist leiður yfir skemmdunum á rafstöðinni því fjölskyldan hafi ætlað sér að halda í hana eins og hún var. „Ég á frekar von á að við reynum að laga hana," segir hann um framhaldið.

Eldsupptök eru óljós en lögreglan á Austurlandi rannsakar málið. Þær upplýsingar fengust þar í morgun að engar vísbendingar um upptökin hefðu fundist á vettvangi en verið væri að athuga með mannaferðir í kring.

Mynd: Svavar Pétur Eysteinsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.