Hjúkrunarfræðingar settu á sig sorgarbönd: Lakari stöðu kvenna er viðhaldið

hjukrunarfraedingar fsn sorgarbond 19062015 webHjúkrunarfræðingar og nemar við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað söfnuðust saman utan við húsið í gær á 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og settu á sig sorgarbönd. Með því vildu þær mótmæla lögum sem sett voru á verkfall hjúkrunarfræðinga og minna á lakari stöðu kvenna í samfélaginu.

„Við gerðum þetta til að lýsa yfir samstöðu og vonbrigðum með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja lög á verkfall hjúkrunarfræðinga, hversu lítið er að gerast í samningamálum og hve lítill vilji virðist til að leysa kjaradeilurnar," segir Þórhalla Ágústsdóttir, hjúkrunarfræðingur við FSN.

„Þetta er frekar táknrænn dagur. Við viljum undirstrika lakari stöðu kvenna í okkar samfélagi. Henni er viðhaldið. Þótt ýmislegt hafi áunnist er langt í land. Það virðist lítill vilji til að minnka launamun karla og kvenna."

Hjúkrunarfræðingarnir söfnuðust saman á planinu í hvítum fötum og settu á sig svört sorgarbönd. Slíkt var einnig gert á Landsspítalanum.

Sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir gáfu konum víða frí til að taka þátt í skipulögðum hátíðarhöldum í tilefni dagsins. Hjúkrunarfræðingarnir á FSN komust hins vegar ekki úr vinnunni.

„Þeir standa vaktina þennan dag eins og aðra og hafa næg verkefni."

Alþingi samþykkti lög á verkfall hjúkrunarfræðinga um síðustu helgi. Ákvörðunin vakti ólgu og einhverjir þeirra hafa brugðist við með að segja upp störfum.

Nokkrar uppsagnir munu hafa borist innan HSA og fleiri hugsa sinn gang, eftir því sem Austurfrétt kemst næst.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.