Fyrsta listnámsbrautin til stúdentsprófs eftir nýrri námsskrá

listnamsbraut meMenntaskólinn á Egilsstöðum er fyrsti íslenski framhaldsskólinn sem býður upp á listnámsbraut til stúdentsprófs. Mennta- og menningarmálaráðuneytið staðfesti nýverið formlega að listnámsbraut skólans uppfyllti skilyrði aðalnámskrár sem fullgild námsleið til stúdentsprófs.

„Við erum á undan öðrum skólum að vinna okkar nýju námsbrautir svo þetta er töluverð frumvinna sem hefur verið unnin en hún getur síðan nýst öðrum skólum við mótun sinna brauta. Við höfum verið síðustu ár að vinna að skipulagningu námsbrauta í samræmi við nýja aðalnámskrá framhaldsskóla.

Við höfum lagt fram fjórar brautir til staðfestingar og fyrir einhverjum mánuðum fengum við samþykki fyrir þremur þeirra, en það komu smávægilegar athugasemdir við listnámsbrautina sem þurfti að vinna úr. Að því loknu var hún send aftur og hefur nú fengið staðfestingu," segir Ólöf Björk Bragadóttir (Lóa) sem er kennslustjóri brautarinnar.

Listnámsbrautin hefur að geyma sameiginlegan kjarna allra annarra brauta skólans, brautarkjarna sem leggur grunn að námi í skapandi greinum og síðan sérhæfingu sem getur verið fjölbreyttur grunnur fyrir þann sem ætlar að undirbúa sig fyrir listnám eða nám í öðrum skapandi greinum. Þótt brautin sé ný hefur ME boðið upp á listnám undanfarin 15 ár sem Lóa segir að hafi nýst mörgum vel.

„Það má án efa nefna 20-30 manns sem hafa verið við nám hér meðan þetta var enn bara tveggja ára námsbraut sem hafa haldið áfram námi í hinum ýmsu skapandi greinum og starfa alfarið við þessar greinar í dag."

Í kringum brautina hefur spunnist samstarf í ýmsar áttir. Nemendur geta tekið eina önn í LungA-skólanum og fengið það metið inn á brautina í ME og síðan er hafið samstarf við Austurbrú um þróun á annarri námsleið á háskólastigi sem er nám í nýtingu á staðbundnu hráefni. Þá hafa brautirnar verið kynntar fyrir fulltrúum Listaháskóla Íslands sem Lóa segir áhugasama um framhaldið.

Skapandi útskriftarverkefni

Listnámið teygir sig víðar inn í námið í ME því kennarar þar hönnuðu áfangann „Listir á líðandi stundu" sem allir nemendur skólans fara í.

„Ég held að við séum eini framhaldsskólinn á landinu sem er með listaáfanga sem hluta af sameiginlegum kjarna allra brauta. Þetta gerum við til þess að kynna það hversu listir og menning eru mikilvægur þáttur í samfélaginu. Sköpun er einn af lykilþáttum nýrrar aðalnámskrár og því teljum við þetta góða leið til að ná með þann þátt ekki aðeins til listnema heldur allra nemenda."

Hins vegar vinna allir nemendur sem útskrifast lokaverkefni sem tengist þeirra áhugasviði. „Það getur verið þverfaglegt verkefni þar sem þeir geta jafnvel unnið listrænt með önnur svið.

Nemendur hafa til dæmis búið til ljósmyndabækur eða sýningar um tiltekin viðfangsefni félags- eða náttúruvísinda. Tveir nemendur af listnámsbrautinni eru núna að gera dansverk og þá kalla ég til fagmenntaða dansara til að aðstoða við að meta verkið."

Lóa er mjög ánægð með að fá listnámsbrautina loks staðfesta og telur að ME geti með henni markað sér nokkra sérstöðu.

„Ég held að með því að listnámið sé orðið að fullgildri stúdentsbraut geti það breytt afstöðu fólks til mikilvægis námsins og orðið til þess að menn átti sig á því að þetta er ekki bara hliðargrein. Við vonumst auðvitað til þess að fá líka í kjölfarið fleiri nemendur og ekki bara nemendur héðan af Austurlandi heldur allsstaðar að."

Mynd: ME

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.