95% samþykktu verkfallsboðun hjá undirverktökum á álverssvæðinu

alver alcoa april2013Starfsmenn hjá undirverktökum á álverssvæðinu í Reyðarfirði leggja niður vinnu eftir rúma viku ef ekki verður skrifað undir nýja kjarasamninga. Verkfallsboðunin var samþykkt með miklum yfirburðum.

Alls voru 375 félagsmenn í AFLi starfsgreinafélagi á kjörskrá, 159 greiddu atkvæði eða 42%. Já sögðu 151 eða 95% greiddra atkvæða, nei sögðu 5 eða 3% og auðir seðlar voru 2 eða 2%

Verkfallið verður tvískipt – annars vegar 14. apríl frá 12 á hádegi til 23:30. Hins vegar ótímabundið verkfall frá hádegi 21. apríl.

Í tilkynningu frá AFLi segir að verkfallið taki meðal annars til starfa við við framleiðslu, viðhald, ræstingu, mötuneyti, hafnarvinnu, meðferð spilliefna og aðra þjónustu á og við verksmiðjuna svo og störf í vöruskemmu og við birgðahald og skrifstofustörf. Starfsmenn sem fara í verkfall vinna hjá 8 undirverktökum ALCOA Fjarðaáls.

Kröfur AFLs Starfsgreinafélags eru að greidd séu sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu. Félagið hefur gert kröfu um „lóðarsamning" síðan 2006 en beindi kröfum að Samtökum atvinnulífsins fyrst 2011 og síðan við gerð kjarasamninga 2013. Alls hafa í þessari lotu verið haldnir 5 sáttafundir en án árangurs.

Í yfirlýsingunni er harmað að grípa þurfi til „svo umfangsmikilla aðgerða sem verkfallsboðun er – en þetta er nauðvörn launafólks sem vill fá kjarasamning og réttlátt hlutskipti. Samtök Atvinnulífsins hafa mætt kröfum okkar með fullkomnu tómlæti.

Þá er rétt að benda á að félagið og starfsmenn undirverktaka hafa sýnt ótrúlegt langlundargeð og eru nú fyrst að grípa til aðgerða eftir að hafa haft kröfurnar uppi í 5 ár."

Verkfallsboðunin var samþykkt á miðvikudag og síðan hefur AFL fengið stuðningsyfirlýsingar frá stórum verkalýðsfélögum í Bretlandi og Bandaríkjunum en félögin starfa saman innan samskiptanets verkalýðsfélaga með starfsmenn sem starfa hjá fyrirtækjum sem tengjast Alcoa.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.