Kostar rúman hálfan milljarð að ljósleiðaravæða Fljótsdalshérað

baejarskrifstofur egilsstodum 3Áætlað er að heildarkostnaður við að leggja ljósleiðara heim að hverju íbúðarhúsi í sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði sé rúmur hálfur milljarður króna og að verkið taki fimm ár. Annar möguleiki er að koma upp þráðlausum sendum fyrir brot af kostnaðinum og á mun skemmri tíma.

Þetta var meðal þess sem kom fram á íbúafundi um fjarskiptamál í sveitarfélaginu fyrir skemmstu en fyrirtækið Tengir á Akureyri hefur síðustu misseri unnið að úttekt um fjarskiptamálin.

Stærsti kostnaðarliðurinn er jarðvinna en grafa þarf 440 km af skurðlögnum til að koma leiðaranum niður. Talið er að það kosti tæpar 300 milljónir.

Á eftir fylgir efni og vinna upp á tæpar 150 milljónir, hönnun og undirbúningur kosti um 20 milljónir og annar búnaður tæpar 60 milljónir.

Gert er ráð fyrir að fjarskiptafélagið sem byggi upp kerfið leggi til rúmar 100 milljónir, notendur greiði aðrar 100 milljónir, síðan eigi eftir að reikna virðisaukaskatt af og loks leggi ríkið til fjárhæð sem nemi um 250 þúsundum á hvern bæn. Þá vantar hins vegar enn upp á tæpar 170 milljónir til að dæmið gangi upp.

Í tillögum Tengis er lagt til að byrjað verði á svæðinu fyrir innan Egilsstaði, síðan farið út með Lagarfljóti að austanverðu og svo í norður þannig að endað verði á Jökuldal. Það svæði er strjálbýlast og þar með dýrast.

En þótt margir telja ljósleiðarann varanlegustu lausnina er ljóst að lagningin tekur tíma og er dýr.

Á fundinum kynnti Eyjólfur Jóhannsson frá Rafey lausn með þráðlausum sendum sem hann segir kosta 2-5% af því sem ljósleiðarinn kosti og aðeins taki 3-6 mánuði að koma kerfinu upp.

Eyjólfur sagði að reiknað væri með að 16-18 senda þyrfti til að dekka sveitarfélagið en merki hvers sendis drífur 50 km ef ekkert skyggir á.

Hann sagði kerfið vera nógu hratt til að uppfylla helstu kröfur notenda, meðal annars til að dreifa sjónvarpsefni.

Eyjólfur taldi rekstraröryggi kerfisins gott, ekki væri mikið mál að skipta um búnað þótt bilanir komi upp og hröð þróun búnaðarins geri hann traustari en áður.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.