Nóg af grásleppu í sjónum en erfiðir markaðir

falkatindur fm webMælingar Hafrannsóknastofnunar benda til að grásleppustofninn sé óvenju sterkur. Veiðimaður segir lágt verð og erfitt veður letja menn í veiðunum.

„Það var fínasta veiði í fyrstu vitjun en síðan hefur veðrið verið erfitt. Það er leiðinlegt þegar lægðirnar koma svona á færibandi," segir Kári Borgar Ásgrímsson, útgerðarmaður á Borgarfirði eystri.

Veiðarnar hófust 20. mars og í morgun ákvað sjávarútvegsráðherra að fjölga veiðidögum úr 20 í 32 eftir hæstu mælingu á stofninum í níu ár. Gert er ráð fyrir að heildarveiði á vertíðinni verði ekki meiri en 6.200 tonn sem svari til ríflega 11.200 tonna af hrognum.

Kári Borgar tekur undir að nóg sé af fiski í sjónum en það segir ekki alla söguna. Búið er að selja grásleppuna sjálfa til Kína en það eru hrognin sem eru verðmætasta afurðin.

„Það er ekkert verð á þeim miðað við það sem var fyrir nokkrum árum. Ástandið er skárra en fyrir tveimur árum en það er engin trygg sala. Þótt að fullt af köllum segist vilja kaupa þá eru engin verð í boði ef við ætlum að fá eitthvað fyrir afurðina."

Hann segir verðið fyrst og fremst skýrast af offramboði. Hrognin séu lúxusvara og markaður fyrir þau minnki þegar kreppir að en stærstu kaupendurnir eru í mið Evrópu.

Kári leggur net sín fyrir utan Skála á Langanesi en þangað er um 50 mílna sigling frá Borgarfirði. „Ef veðrið leikur við okkur þá förum við út seint á kvöldin og siglum rólega norður þannig menn nái að hvílast á meðan.

Síðan er dregið allan daginn og svo siglum við aftur heim þannig við erum um það bil sólarhring í túrnum," segir Kári sem vonast til að komast af stað í næstu veiðiferð í kvöld.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.