APRÍLGABB: Fjarðabyggðarhafnir kaupa farþegaferju

ferja fjardabyggd3Stjórn Fjarðabyggðarhafna samþykkti á fundi sínum í gær að festa kaup á farþegaferju. Austurfrétt hefur það eftir heimildarmanni sínum að ferjan verður afhent í vor og að rekstur hennar verði boðinn út á evrópska efnahagssvæðinu.

Markmiðið með siglingunum mun vera að bjóða upp á farþegasiglingar og fragtflutninga á milli Íslands og Skotlands, en samkvæmt heimildum Austurfréttar mun einnig ætlunin að hafa viðkomu í Danmörku og Færeyjum á leið til Íslands.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, neitaði að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Athygli vekur að fundargerð hafnarstjórnar hefur ekki verið birt á heimasíðu Fjarðabyggðar eins og venja er.

Austurfrétt hefur undir höndum gögn frá skipamiðlara sem lögð voru fyrir fundinn í gær. Ferjan sem um ræðir er byggð í Japan árið 1988. Hún er nokkuð stærri en ferjan Norræna, eða tæpir 193 metrar á lengd og rúmir 29 metrar á breidd en tekur færri bíla og farþega sem gefur aukið pláss fyrir vöruflutninga. Ganghraði hennar er einnig nokkru meiri en Norrænu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um endanlegt kaupverð, en talið er að það verði ekki undir fjórum milljörðum króna. Þá er einnig ljóst að leggja þarf í kostnaðarsamar framkvæmdir við hafnaraðstöðu fyrir skipið.

Sem fyrr segir er tilgangur kaupanna að hefja siglingar milli Íslands og Skotlands, en stefnt er á að siglt verði frá Aberdeen, sem er helsta olíuhöfn í Skotlandi. Þó að ekkert hafi enn verið látið uppi um áformin segja heimildir Austurfréttar „nánast öruggt“ að einnig verði siglt til Danmerkur og Færeyja, enda sé síðarnefndi viðkomustaðurinn „alveg í leiðinni“ og að svo stutt sé til Danmerkur frá Skotlandi að það væri „fráleitt að sleppa því tækifæri“.

Fjarðabyggð og Seyðisfjörður tókust nýverið nokkuð í fjölmiðlum í tengslum við hugsanlega breytingu á viðkomuhöfn Norrænu hér á landi. Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri á Seyðisfirði staðfesti í samtali að hann hefði fengið upplýsingar um málið frá bæjarstjórn Fjarðabyggðar.

„Við erum eiginlega orðlaus hér, það er ekki flóknara en það. En við munum ekki láta það kyrrt liggja að nágrannasveitarfélag noti sjóði sem byggðir hafa verið upp með samstöðu Austfirðinga um stjóriðjuframkvæmdir til þess að klekkja með þessum hætti á nágrönnum sínum“.

Aðspurður um næstu skref sagði hann að þegar hefði verið haft samband við forsætisráðherra og þingmenn kjördæmisins vegna málsins. Næstu skref yrðu ákveðin í samráði við þá.

Fréttir af málinu hafa þegar spurst út og hrundið hefur verið af stað undirskriftasöfnun á netinu þar sem hægt er að mótmæla því sem kallað er „yfirgangur Fjarðabyggðar“. Hægt er að komast inn á undirskriftalistann með því að smella hér.

Mynd: Ferjan sem um ræðir. - John Giles Broker/Auctioneer - http://www.shipsandyachts.com/

Frétt þessi er uppspuni frá rótum og skrifuð í tilefni af 1. apríl. Vonandi hefur hún fengið einhvern til að glotta og kannski komið blóði annarra á örlitla hreyfingu í smástund... 


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.