RARIK: Von á að aflstöðin verði fljótlega flutt til baka

breiddalsvik2008Fjórar af sex færanlegum varaaflstöðvum RARIK eru staðsettar í Norður-Þingeyjasýslu í dag, þar á meðal sú sem átti að þjóna Austurlandi. Forsvarsmenn RARIK segja ekkert hafa bent til þess við reglubundna skoðun í sumar að spennir við Ormsstaði í Breiðdal myndi gefa sig eins og raunin varð fyrir jól.

Hreppsnefnd Breiðdalshrepps hefur þrýst á um úrbætur eftir að rafmagnslaust varð í sveitarfélaginu í tæpan sólarhring tíu dögum fyrir jól þegar aðalspennir í spennistöð við Ormsstaði í Breiðdal gaf sig.

Hreppsnefndin hefur meðal annars farið fram á að varaafl sé til staðar en í haust var færanleg aflstöð, sem þjóna átti Austfjörðum, send frá Fáskrúðsfirði til Þórshafnar vegna hugsanlegs eldgoss og hamfarahlaups.

Tryggvi Haraldsson, forstjóri RARIK, segir í svari við fyrirspurn Austurfréttar að verið sé að „yfirfara“ málin nú og búist sé við að stöðin verði „fljótlega“ flutt til baka. Það verði samt ekki gert nema í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landsnet.

Í svarinu kemur fram að RARIK eigi sex færanlegar varavélar sem samanlagt geti framleitt 4 MW. Ein sé á Suðurlandi, önnur á Sauðárkróki og hinar fjórar í Norður-Þingeyjasýslu. Þá séu til nokkrar minni vélar sem hægt sé að færa til.

Varaaflstöð er ekki lengur til staðar á Breiðdalsvík en RARIK starfrækir þær ekki þar sem afl berst úr tveimur áttum, líkt og í Breiðdal. Í svari við fyrirspurn Austurfréttar ítrekar Tryggvi að það hafi komið mönnum í opna skjöldu þegar spennirinn gaf sig við Ormsstaði.

„Allir aflspennar RARIK eru undir reglubundnu eftirliti og fylgst með ytra ástandi þeirra, eins og annarra eininga í aðveitustöðvum RARIK. Tekin eru olíusýni úr öllum aflspennum á 5 ára fresti til að fylgjast með innra ástand þeirra og sendum við þau sýni til aðila erlendis til rannsóknar.

Þetta var gert við alla aflspenna RARIK á Austurlandi, þar með talinn þennan spenni, á árinu 2014. Ekkert kom í ljós sem benti til þess að ástand spennisins væri ekki eðlilegt.“

Árið 2006 kom í ljós að spennir við Ormsstaði þyrfti að fara í viðhald eftir rúmlega 20 ára þjónustu og kom sá sem bilaði fyrir jól í staðinn.

Hann hafði áður verið í Mývatnssveit og Eyvindará á Fljótsdalshéraði en fór í viðhald áður en hann kom í Breiðdal. Hann er þýskur framleiddur árið 1967 sem telst ekki gamalt fyrir aflspenna, samkvæmt upplýsingum frá RARIK.

„Til samanburðar er meðalaldur þeirra rúmlega 60 aflspenna sem eru í eigu RARIK yfir 30 ár. Spennirinn frá Breiðdal verður nú yfirfarinn og að öllum líkindum lagfærður og tekinn í notkun aftur,“ segir í svari Tryggva.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.