Hreindýraveiðar ganga hægt: Mér kæmi hreinlega ekkert á óvart að þetta yrði í síðasta skipti sem menn fengu að velja sér tíma

joi guttHreindýraveiðitímabilið hófst  15. júlí og varir til 20. september nk. og er því ríflega hálfnað. Austurfrétt heyrði í Jóhanni G. Gunnarssyni starfsmanni Umhverfisstofnunnar á Egilsstöðum og spurði hann hvernig veiðimönnum hefur gengið í ár.

„Þeim hefur gengið ágætlega, en menn hafa verið seinir að fara til veiðanna. Það er ekki búið að veiða meira en 630 dýr af kvótanum sem 1272 dýr. Það er búið að veiða rétt um helminginn og það er rétt rúmlega hálfur mánuður eftir af tarfatímabilinu og um 20 dagar eftir til að veiða kýrnar“, segir Jóhann.

„Það hefur oft verið hægagangur í veiðunum, en þetta er að verða verra en það hafur verið. Ég veit ekki hvað veldur því, veður hefur yfir heildina verið mjög gott á þessu tímabili. Það hefur kannski verið svona ein vika sem sem var leiðinleg út af þoku, en margir góðir og bjartir dagar á öllum veiðisvæðum.

Menn ekki að fylgjast með

Ár hvert eru margir sem sækja um hreindýraleyfi og komast færri að en vilja. Þeir sem fá ekki úthlutað leyfi fara þá á biðlista og krossa fingur í von um að komast að.

„Já, það myndast alltaf góðir biðlistar og það gengur verulega á þá í ár. Ég þarf að úthluta á biðlista varaumsókna á kýrnar á nokkrum stöðum og tarfaleyfi á tveimur svæðum, en það er ekki endilega auðvelt að koma þessum leyfum út og það fer að þyngjast úr þessu.

Menn eru búnir með sumarleyfin sín og fæstir hafa lokið skotprófi sem ég hringi í. Það er eiginlega alger undantekning að menn séu hreinlega að fylgjast með hver staðan þeirra sé og þeir virðast ekkert vera að spá í þetta fyrr en kallið kemur, og þá er tíminn fljótur að líða ef allir þurfa fjóra daga til að hugsa sig um“.

Nú er veiðitíminn meira en hálfnaður. Eru einhver skilaboð sem Jóhann vill koma til veiðimanna?

„Það er sami söngurinn. Það þýðir ekkert að fara að segja mönnum héðan að drífa sig en ég held að menn geti alveg búist við því að það verði ekkert skemmtilegt að veiða síðustu vikurnar vegna fjölda veiðmanna á svæðunum.

Það eru strax farnar að koma biðraðir í hópana um helgar, og helgarnar eru vandamál að því leytinu að 70% veiðimanna vilja veiða um helgar og það er ekki ásættanlegt. Mér kæmi hreinlega ekkert á óvart að þetta yrði í síðasta skipti sem menn fengu að velja sér tíma. Það er hreinlega ekki hægt að hafa þetta eins og þetta hefur verið“, segir Jóhann.

„Hugsanlegt er að draga menn út á tímabil sem þýðir að um leið og það er dregið um leyfi yrði dregið út á sama tíma hvort menn lendi á tímabil eitt, tímabil tvö eða þrjú. Það væri alla vega ekki vitlaust að prófa hvernig það kæmi út.

Maður veit að það eru annmarkar á þessu að því leytinu til að ef ein vika fer í þoku, þá er strax búið að riðla öllu. Þetta er allavega eitthvað sem væri hægt til prufu, en það er óásættanlegt að 70% veiðimanna ætli að veiða um helgar, það gengur bara ekki upp“, segir Jóhann að lokum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.