23 milljónir austur í ljósleiðaralagningu: Ekki upp í nös á ketti

Fjögur austfirsk sveitarfélög fá samanlagt 23 milljónir króna úr sérstakri 100 milljóna úthlutun í lagningar ljósleiðara sem ráðherra byggðarmála kynnti í gær. Formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi segir fjármögnunina skref í rétta átt en mun meira þurfi til að þoka verkefninu áfram.


„Við höfðum grun að það væri verið að huga að þessum potti en fengum ekki vissu um hann fyrr en í gær. Með þessari fjárveitingu er búið að viðurkenna þörfina á að hluti þess fjármagns sem ætlað er í ljósleiðaravæðingu fari í sérstakan byggðapott þannig að verst settu og strjálbýlustu sveitarfélögin hafi einhverja möguleika,“ segir Sigrún Blöndal, formaður SSA og bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði.

Búið var að úthluta 450 milljónum í ljósleiðaravæðingu landsins á þessu ári, þar af voru 65 milljónir eyrnamerktar starfssvæði SSA. Sveitarfélög á svæðinu hafa að undanförnu lagt lokahönd á umsóknir um styrki en frestur til þess rennur út 1. febrúar.

Þar hefur verið gert ráð fyrir að hæstu styrkirnir fari til þeirra sveitarfélaga sem tengt geta flesta notendur fyrir minnstan tilkostnað, sem er fámennari og strjálbýlli sveitarfélögum í óhag. Ráðherra kynnti í gær sérstaka 100 milljóna fjárveitingu til slíkra svæða. 23 milljónir fara austur, mest 9,5 milljónir til Fljótsdalshéraðs.

Breytir engu stórkostlegu

Þar með eru 550 milljónir ætlaðar í ljósleiðaravæðinguna í ár. Sigrún segir það skref í rétta átt en meira þurfi til. „Við náum ekki enn 100 milljónum inn á Austurland. Þetta er í áttina en þetta er í raun ekki upp í nös á ketti.

Það þarf talsvert til að verkefnið komist eitthvað áfram. Breiðdalshreppur fær til dæmis fjórar milljónir. Þær hjálpa en breyta engu stórkostlegu.“

Kemur seint

Sigrún bendir á að enn sé mörgum spurningum ósvarað um þetta viðbótar framlag, til dæmis hvað sveitarfélögin þurfi að leggja á móti eða önnur skilyrði. Hún á von á að sveitarfélögin fái frekari kynningu eftir helgi.

Þá gagnrýnir hún hve seint fjármununum er úthlutað. Sveitarfélögin gengu frá sínum fjárhagsáætlunum um mánaðarmótin nóvember desember. Á Fljótsdalshéraði var til dæmis enginn peningur settur sérstaklega í ljósleiðaramál.

„Við höfum kallað eftir þessum upplýsingum síðan í maí. Það hefði verið þægilegra að vita þetta áður en fjárhagsáætlunum var lokað. Þetta verk er af þeirri stærðargráðu að sveitarfélögin hafa ekki tak á að standa fyrir því án aðkomu ríkisins. Að auki sé þetta grunnþjónusta sem ríkið eigi að standa fyrir.“

Hlutdeild austfirskra sveitarfélaga í 100 milljóna pottinum

Fljótsdalshérað 9,5 milljónir
Djúpavogshreppur 5,1 milljón
Vonafjarðarhreppur 4,3 milljónir
Breiðdalshreppur 4,1 milljón

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.