Barri: Fyrstu jarðarberjaplönturnar blómstra

jardarber barri 0002 webStarfsmenn Gróðrarstöðvarinnar Barra hafa undanfarna daga tínt fyrstu jarðarberin sem ræktuð eru á vegum stöðvarinnar. Ræktunin er enn á tilraunastigi en plönturnar þurfa að þola íslenska veturinn.

Hjá Barra hafa verið tínd ber af plöntunum í um þrjár vikur. Fyrstu dagana fengust 1-2 kg en mesta uppskeran var á laugardaginn þegar 5 kg voru tínd.

Uppskeran fer meðal annars eftir veðurfari en plönturnar gefa frekar af sér í sólskini. Hún er aftur farin að minnka en von er á að ber verði tínd eitthvað fram eftir mánuðinum.

Jarðarberjaræktin er enn á tilraunastigi hjá Barra og ætlun stöðvarinnar er alls ekki að selja berin heldur plönturnar sjálfar. Markhópurinn eru sumarbústaðaeigendur og aðrir garðyrkjuáhugamenn sem vilja rækta jarðarber á skjól- og sólríkum stöðum.

Unnið er með jarðarberjayrki frá annars vegar Finnlandi og hins vegar Bandaríkjunum. „Ég bind miklar vonir við finnska yrkið því það er ætlað fyrir norðlægari slóðir," segir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra.

Jarðarberjaplönturnar eru geymdar úti yfir veturinn og því mikilvægt að þær þoli íslenska veturinn. „Ég ætla þeim að gera það. Þær verða að gera svo vel og lifa af. Markmiðið hjá okkur er að selja plöntur til útiræktunar."

Byrjað var að selja jarðarberjaplöntur frá Barra, sem til þessa hefur aðallega ræktað skógarplöntur, í fyrra. Ræktunin var umfangsmeiri í ár en ekki tókst að koma plöntunum nógu snemma á markað. Því var fenginn inn starfsmaður í samvinnu við Starfsendurhæfingu Austurlands til að sinna þeim í sumar.

Plönturnar stóðust vetrarprófið vel og líta vel út. „Við fengum fyrstu berin í apríl þegar við tókum nokkrar plöntur inn og leyfðum þeim að lifna við."

Kunnugir hafa fengið að smakka fyrstu berin. „Menn geta sett sig í samband við okkur og athugað hvort það sé eitthvað afgangs ef þá langar í ber en framboðið er mjög takmarkað. Þeir sem hafa fengið ber hafa verið mjög ánægðir," segir Skúli.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.