Þorsteinn Steinsson: Það finna allir fyrir óþægindum

thorsteinn steinsson apr13 skorinnSveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps segir bruna í einu matvörubúð staðarins hafa áhrif á alla sem þar búi og gesti þeirra. Þar standa fiskvinnslu- og ferðamannavertíðir sem hæst.

„Fyrst og fremst hefur þetta í för með sér óþægindi. Það finna allir fyrir því að geta ekki komist í sína matvörubúð," segir Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.

Eldur kviknaði á lager Kauptúns rétt fyrir klukkan fimm í nótt. Slökkviliðið kom fljótt á staðinn og var búið að ráða niðurlögum eldsins um hálftíma síðar.

Skemmdir hafa hins vegar orðið á vörum og húsnæði af reyk. Vínbúð ÁTVR er í sama húsi en skemmdirnar eru hvar minnstar þar. Þá er horn undir apótek inni í kjörbúðinni en það rekur sveitarfélagið.

Ekki er ljóst hversu lengi búðin verður lokuð. „Menn eru bara að meta stöðuna. Rýmið sem apótekið er í er ekki stórskemmt en það þarf að skoða vörurnar og kanna hvort hægt sé að selja þær. Við erum með varabirgðir af helstu lyfjum ef þess þarf en almenningur finnur fyrir þessu."

Á Vopnafirði er ferðamannatímabilið í hámarki auk þess sem unnið er á sólarhringsvöktum hjá HB Granda í makríl, síld og loðnu.

Vopnfirðingar gætu því þurft 70 km á Þórshöfn eða 135 km í Egilsstaði næstu daga til að kaupa í matinn. „Vopnfirðingar eru duglegir að versla í heimabyggð en menn sjá það núna að það er ekki sjálfgefið að hafa þjónustu af þessum toga."

Fulltrúar frá tryggingafélagi Kauptúns skoðuðu aðstæður eftir hádegið í dag en vonast er til að hreinsunarstarf hefjist í kvöld eða fyrramálið. „Mér heyrist menn vera á fleygiferð við að búa þannig um hnútana að hægt verði að opna sem fyrst aftur," sagði Þorsteinn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.