Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunnar: Fjölbreytt íþróttahátíð þar sem kynslóðirnar mætast á jafnréttisgrundvelli

sumarhatid ggSumarhátíð UÍA hefur löngu fest sig í sessi aðra helgina í júlí. Framkvæmdastýra sambandsins segir um að ræða fjölbreytta hátíð þar sem blandað sé saman keppni og íþróttum fyrir alla.

„Þetta er fjölbreytt og skemmtileg fjölskylduhátíð þar sem saman fer keppni og gleðin yfir því að taka þátt í hinum ýmsu greinum," segir Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra UÍA. Keppni hefst í kvöld með sundi og borðtennis.

Á morgun verður sundkeppninni haldið áfram en þegar henni lýkur um hádegisbilið fer í gang frjálsíþróttakeppnin. Þetta eru tvær stærstu greinarnar á hátíðinni, en um 200 þátttakendur eru í frjálsíþróttum og von á ríflega 100 í sundið. Þótt þær séu stærstar eru fleiri greinar sem skipta máli. „Við erum með boccia og borðtennis þar sem kynslóðirnar mætast á jafnréttisgrundvelli."

Hátíðin hefur nú verið haldin samfleytt í yfir 30 ár. Framan af var hún á Eiðum en eftir að Vilhjálmsvöllur var byggður upp á Egilsstöðum fyrir Landsmót UMFÍ árið 2001 hefur hátíðin verið inni í bænum. Keppni í frjálsum og sundi hefur árum saman verið þungamiðjan í keppninni en fleiri minni greinar eru með til að styrkja hátíðina.

Eftir að keppni lýkur á Vilhjálmsvelli á laugardag munu menn færa sig um set yfir í Bjarnardal þar sem slegið verður upp grillveislu. Í lok hennar verður keppt í strandblaki en fyrst verður hitað upp með ringó sem er ný grein. Í þeirri grein hefur verið keppt á Landsmótum 50+ en hún líkist blakinu að því leiti að skipt er í tvö lið á blakvelli og skiptast þau á að henda yfir net á vallarhelming hvors annars tveimur gúmmíhringjum og á liðið sem tekur á móti að koma í veg fyrir að hringurinn lendi á jörðinni.

„Þetta er enn ein greinin þar sem fara má af stað með viljann að vopni fremur en kunnáttu eða hæfileika í greininni. Þetta er fjölskylduíþrótt og það verður gaman að sjá hvernig Austfirðingar taka við sér í henni," segir Hildur. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á www.uia.is.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.