Góð lífsskilyrði fyrir laxa í Jöklu

steinbogi fiskvegur1 webMælingar á löxum og seiðum úr Jökulsá á Dal gefa til kynna að lífsskilyrði fyrir fiskin séu góð í ánni. Veiðisvæðið í ánni hefur stækkað eftir að gerður var fiskigangur við svokallaðan Steinboga fyrir tveimur árum.

Þetta kemur fram í skýrslu um veiðina sem Veiðimálastofnun sendi frá sér í vor. Tækifæri á að stunda laxveiði í ánni opnuðust þegar hún varð að bergvatnsá neðan Kárahnjúka eftir að hafa verið stífluð þar og veitt austur í Fljótsdal árið 2007. Seiðum hefur verið sleppt í ána en einnig reynt að greiða götu náttúrulegra fiska.

Í umræðukafla skýrslunnar segir að upplýsingar um hrygningu og klak bendi til þess að sjálfbær stofn sé að ná sér á strik í ánni. Landnám laxanna byrjar á neðri hluta vatnakerfisins en þar fundust náttúruleg laxaseiði.

Stór hluti þess vatns sem er í farveginum kemur innarlega af vatnasviðinu. Það vatn er ríkara af áburðarefnum en það sem fellur til neðar. Því telja skýrsluhöfundar Jöklu sjálfa líklegri til að hafa betri lífsskilyrði fyrir laxa en hliðarárnar. Jafngömul náttúruleg laxaseiði þar eru stærri en úr hliðarám.

Sumarið 2012 var ráðist í að gera fiskveg við svokallaðan Steinboga sem talinn var hindrun á gangi fiska upp ána. Í skýrslunni segir að áhrifin af gerð vegarins séu ekki fyllilega ljós en miðað við dreifingu laxveiði virðist hann hafa flýtt fyrir göngum upp ána í fyrra.

Þar fyrir ofan varð mesta breytingin á veiðinni, árið 2012 voru þar 17% veiðinnar en 62% í fyrra. Fleiri skýringar kunna þó vera á dreifingunni, svo sem að slepping seiða ofar í ánni sé að skila sér. Þá er bent á að haft við Vaðlabjörg virðist vera hindrun fyrir göngum enn lengra upp ána.

Áhyggjur hafa verið af áhrifum yfirfallsvatns frá Kárahnjúkum sem kemur síðsumars þegar lónið er orðið fullt. Lítil áhrif af því koma fram í rannsókninni en það kunni að draga úr vexti ef það komi snemma. Bæði sleppiseiði og fæðudýr hafa lifað af yfirfallsvatn.

Tekið er fram að lengri reynslutíma þurfi á ána og frekari rannsóknir til að meta veiðinýtingu til framtíðar. Áætlað er að laxfiskar þurfi að lágmarki 15-20 ár til að fullnema svæðið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.