Viljum koma sveitarfélaginu í þá stöðu að það geti rekið sig: Atvinnumál eru aðalmálið

oskalistinn djupi x14Frambjóðendur Óskalistans í Djúpavogshreppi segjast vilja grandskoða fjármál sveitarfélagsins. Talsmenn lista Framfara segja mestu skipta að styrkja frekar stoðir atvinnulífsins. Þau vilja fara ólíkar leiðir við ráðningu sveitarstjóra.

„Við þurfum að greina fjármál sveitarfélagins og borga niður skuldir. Þær lækkuðu fram til ársins 2010 en hafa aukist aftur.

Við verðum að koma sveitarfélaginu í þá stöðu að það geti rekið sig, að A-hlutinn standi undir sér. Þá verði til framkvæmdafé. Við eigum ekki mikið meira af eigum til að selja," sagði Kári Valtingojer af Óskalistanum í framsöguræðu sinni.

Sóley Dögg Birgisdóttir, lista Framfara, varaði við að framundan væru launahækkanir flestra starfsmannasveitarfélagsins með nýjum kjarasamningum kennara. Grandskoða þyrfti reksturinn og hagræða þannig að þjónustan væri varin en beðið með framkvæmdir.

Ekkert öryggiskerfi í skólanum

Kári sagði að bæta þyrfti í viðhald skólahúsnæðisins. „Það hefur verið látið dankast í fjöldamörg ár. Þarna er ekkert öryggiskerfi og ekki brunakerfi en þangað sendum við börnin okkar."

Rán Freysdóttir, oddviti Óskalistans, spurði hvers vegna kostnaður við skólana hefði hækkað um fjörutíu milljónir þrátt fyrir sameiningu leik- og grunnskólana.

Sóley Dögg svaraði að hagræðingin hefði einkum átt við stjórnunina. Kostnaðurinn kæmi af fjölgun nemenda en bent var á að þeim hefðu fjölgað úr 67 í 110 á tímabilinu. Þá hafi kröfur til skólanna aukist töluvert.

Enginn að fara að kollkeyra sveitarfélagið

Tekist á um mögulega byggingu safns Ríkharðs Jónssonar en erfingjar hans lýstu fyrir nokkrum árum vilja til að ánafna peningum og öllum gripum til hreppsins ef safn í hans nafni yrði reist á Djúpavogi.

Kári Snær sagði Óskalistann vilja sjá ítarlega rekstraráætlun áður en ráðist verði í byggingu safnsins. „Við erum ekki á móti safninu, það yrði bara skrautfjöður fyrir okkur. Fjárhagsstaðan er þannig að við það er ekki hægt að skuldbinda okkur. Við viljum ekki binda það í eitthvað sem við vitum ekki hversu mikill kostnaður felst í."

Andrés Skúlason, oddviti lista Framfara, sagði ekki væri verið að binda hendur sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hefði ekki lagt til krónu en fengið 24 milljónir frá ríkinu sem skila þurfi ef hætt verði við safnið. Þá hafi sveitarfélagið lofast til að leggja til lóð og húsgrunn.

„Það er enginn að fara að kollkeyra sveitarfélagið. Okkar verkefni er að setja þetta þannig upp að sveitarfélagið ráði við reksturinn. Við förum hægt því við viljum ekki að þetta verði íþyngjandi."

Nokkuð var rætt um hvað yrði um þá gripi sem eru þegar á Djúpavogi eftir að Andrés sagði: „það sem er þarna hinum megin verður ekki þarna lengur" og bætti því við að vilji dætra Ríkharðs væri að sameina muni föður þeirra undir einu þaki.

Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrum sveitarstjóri sem var meðal fundargesta, hélt því fram að gerður hefði verið samningur um eign hreppsins á þeim munum sem eru í Löngubúð og þeir verði ekki færðir. „Þær geta ekki tekið eitthvað sem þær eiga ekki."

Þýðir ekki að við viljum Gauta út

Sjötíu manns mættu fundinn og fylltu salinn í Löngubúð. Gestir veltu meðal annars fyrir sér stöðu Gauta Jóhannessonar sveitarstjóra.

„Gauti er okkar sveitarstjóraefni okkar. Þeir sem kjósa okkur leggja sitt af mörkum til að halda honum og stefna ekki í óvissuna," sagði Kristján Ingimarsson, sem skipar þriðja sæti lista Framfara.

Óskalistinn stefnir á að auglýsa starfið og vinna úr umsækjendum „í samstarfi við fagaðila. Það þýðir ekki að við viljum Gauta út," sagði Hörður Ingi Þórbjörnsson, sem skipar tíunda sæti listans.

„Við vitum ekki hvort hann sækir um" sagði Rán og Kári Snær hélt því fram að „lýðræði væri að auglýsa störf og ráða hæfasta manninn."

Gauti var meðal fundargesta og var þrýst á hann að svara hvort hann myndi sækja um. „Það verður bara að koma í ljós," var svar hans.

Megum ekki gleyma gamla fólkinu

Rætt var um málefni eldri borgara sem verið hafa verið hitamál í sveitarfélaginu eftir lokum dvalarheimilisins Helgafells árið 2009.

Andrés, sem verið hefur oddviti frá árinu 2002, sagði að Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem þá hafið tekið reksturinn yfir eftir langvarandi hallarekstur, hefði ekki treyst sér að halda honum áfram. Reynt hefði verið að fá að reisa hjúkrunarheimili en yfirvöld ekki samþykkt það.

Áherslan hafi þá verið lögð á að bæta heimaþjónustu og fá dagvistun. „Við vildum fá meiri dagvistunarúrræði en við fengum og það urðu átök á milli okkar og heilbrigðisráðuneytisins um að rétta hlut okkar."

Andrés sagði að baráttunni yrði haldið áfram. Undanfarin ár hefði verið forgangsraðað í þágu ungs fjölskyldufólks og það borið árangur. Nú væri komið að þeim eldri. „Við gerum okkur grein fyrir að nú þarf að bæta úr fyrri þann aldurshóp. Ég er ekki sáttur við þá stöðu sem er í dag."

Hann kallaði það „stórsigur" að hafa tryggt stöðu héraðslæknis og hjúkrunarfræðings. „Við þurftum að hafa mikið fyrir því."

Rán sagði að það hefði verið „hálfgerðir hreppaflutningar" þegar dvalarheimilið hefði lokað. „Við viljum búa hér, við viljum vera hér til enda. Við megum ekki gleyma gamla fólkinu."

Óþægilega háð fiskvinnslunni

Atvinnumál hafa verið í brennidepli á Djúpavogi undanfarnar vikur eftir að Vísir boðaði brottflutning fiskvinnslu fyrirtækisins og 25-30 starfa í lok mars. Þeim áformum var frestað í byrjun vikunnar.

Andrés sagði framkvæmdastjóra Vísis hafa heitið því á fundi með sveitarstjórn að tryggja 30-35 störf út árið 2015 og „ekki fara frá borði fyrr en komin er önnur lausn."

Kristján sagði ljóst að næstu mánuðir myndi skipta miklu. „Atvinnumál eru aðalmálið. Við höfum verið minnt óþægilega á hversu háð við erum fiskvinnslunni."

Af því tilefni varð töluverð umræða um möguleika annarra greina og hvernig sveitarfélagið gæti stutt við þær, til dæmis með að útvega húsnæði undir iðnvinnslu.

Kári Snær sagði frambjóðendur Óskalistans „vita nokkurn vegin hvert ætti að stefna." Rán bætti við að framboðið legði áherslu á að „byggja upp miðbæjarkjarna í fallegri mynd en nú."

Þá var rætt um atvinnumáli í dreifbýli og stuðning við uppbygginu þar, svo sem með öflugra netsambandi og lagningu þriggja fasa rafmagns.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.