Eigum ekki að þurfa eignarnám í okkar litla samfélagi: Búin að teygja okkur út yfir gröf og dauða

framfaralistinn djupi x14Frambjóðendur í Djúpavogshreppi tókust á um veglínur í botni Berufjarðar á framboðsfundi í gærkvöldi. Óskalistinn segist vilja vinna málið í sátt en oddviti hreppsins segir sitjandi sveitarstjórn hafa tengt sig eins langt þá átt og unnt sé.

„Þegar við fórum að vinna að framboðinu fundum við að það var ekki sátt, að landeigendur voru ekki ánægðir. Við viljum ekki sjá svona í okkar litla sveitarfélagi. Við eigum að geta komist að niðurstöðu í þessu máli," sagði Kári Snær Valtingojer sem skipar annað sæti Óskalistans.

„Þetta höfum við fengið út úr viðtölum okkar við landeigendur. Við erum búin að fara á alla bæi. Annars værum við ekki að segja þetta."

Völdum þá línu sem flestir landeigendur vildu

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps sem skipar efsta sætið á lista Framfara, kvaðst „hafna því alfarið" að verið væri unnið í ósátt.

Hann sagði hafa verið haldna sáttafundi með landeigendum og Vegagerðinni til að reyna að lenda málinu. Fundargerðir væru til frá þeim fundum þar sem skoðanaskipti væru skráð og fundarmenn staðfest fundargerðirnar.

Hann sagði sveitarstjórnina hafa fallið frá sínum fyrsta kosti og valið þá línu sem allir landeigendur nema einn hefðu viljað fara.

„Við erum búin að teygja okkur yfir gröf og dauða til að ná sátt. Spyrjið hvaða Vegagerðarmann sem er um hvort við höfum ekki gert það. Við völdum þá línu sem flestir landeigendur vildu fara. Var það öll ósáttin?

Ég læt ekki bjóða mér svona þegar ég er búinn að sitja fund eftir fund eftir fund. Ef þetta gengur ekki nákvæmlega eftir höfði eins manns þá er ekki sátt."

Andrés bætti því við að hann hefði þær upplýsingar frá Vegagerðinni að algengara væri orðið en ekki að land væri tekið eignarnámi undir vegagerð í dag. Þá væri ekki hægt að aðskilja veglagningu um Berufjarðarbotn frá umræðum um nýjan Axarveg, sem bæði framboð virtust sátt við að halda óbreyttri stefnu um.

Áhyggjur af umferð í bænum

Þó nokkur umræða varð á fundinum um umferðarmál í þéttbýlinu á Djúpavogi og skipulag, til dæmis hvort ekki væri rétt að færa bensínstöðina út úr miðbænum til að koma þungaumferð þaðan.

Andrés minnti á að það tilheyrði deiliskipulagsvinnu sem væri nýhafin og væri lögum samkvæmt opið ferli sem íbúar gætu komið að.

Bæði framboð voru sammála um að reyna að fjölga hraðahindrunum, skoða lækkun hámarkshraða í bænum og að reyna að beina þungaflutningum út úr bænum um svokallaðan Bræðsluveg.

Komnir í spreng þegar þeir koma til okkar

Sömuleiðis var mikið rætt um salernisaðstöðu fyrir ferðamenn í bænum en íbúi benti á að þeir gerðu margir þarfir sínar á bakvið kaupfélagið.

„Við erum búin að vera að markaðssetja Djúpavog sem ferðaþjónustubæ og við þurfum að geta tekið á móti fólkinu," sagið Rán Freysdóttir, oddviti Óskalistans.

Andrés sagði staðsetninguna há Djúpavogi. „Næstu staðir eru svo langt í burtu að það eru allir komnir í spreng þegar þeir koma til okkar."

Hann talaði fyrir samstarfi Vegagerðarinnar og sveitarfélaga um þjónustu á áningarstöðum „þannig að fólk sé búið að tappa af á leiðinni." Hugmyndir um náttúrupassa sýndu að stjórnvöld gerðu sér grein fyrir að um alvöru mál væri að ræða.

Rán sagði langt að bíða eftir passanum. „Passinn skilar okkur ekki neinu strax. Þetta er vandamál núna."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.