Vísir frestar flutningi: Eins mikilli óvissu aflétt og hægt er

visir djupi mk2 webVísir hefur ákveðið að fresta flutningi á tveimur af þremur vinnslulínum fyrirtækisins frá Djúpavogi til Grindavíkur um allt að eitt ár. Með henni flytjast fimmtán störf. Tímann á að nota í að treysta stoðir vinnustaðarins.

„Við frestum þessu um eitt ár. Við sáum að það þyrfti lengri tíma til undirbúnings og eins er þetta gert í ljósi umræðu og aðstæðna. Það er í takt við ásetning okkar að gera þetta eins mjúklega og hægt er."

Þetta sagði Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í samtali við Austurfrétt. Pétur var á Djúpavogi í dag og ræddi við starfsfólk.

„Það er ánægt. Menn eru ánægðir með að eins mikilli óvissu er aflétt og hægt er. Við höfum alltaf talað á þeim nótum við okkar starfsfólk að þetta sé tilfærsla á störfum en ekki lokun."

Þurrsöltun flyst þó frá Djúpavogi til Grindavíkur og með fimmtán starfsmenn og þrjú börn. „Við gátum ekki beðið með söltunina út af markaðsástæðum í Suður-Evrópu," segir Pétur.

Eftir verða tæki og vinnslulínur til ferskfiskvinnslu og frystingar. Í stað söltunarlínunnar verður fjárfest í vinnslulínu til slátrunar og pökkunar á eldisfiski.

Í tilkynningu Vísis segir að heimamönnum gefist með þessu „mun rýmri tími til að bregðast við boðuðum breytingum. Ákvörðunin er í fullu samræmi við þann vilja og ásetning stjórnenda Vísis að finna og byggja upp starfsemi og störf í stað þeirrar sem hverfa og bjóða starfsfólki sínu ný störf á sama stað eða sömu vinnu á nýjum stað."

Þar segir að starfsmönnum Vísis og sveitarstjórnarmönnum á Djúpavogi hafi verið gerð frekari grein fyrir framkvæmdinni á fundi í dag. Stjórnendur Vísis muni áfram vinna með sveitarstjórn Djúpavogshrepps við að styrkja stoðir fyrir nýja atvinnustarfsemi í fiskvinnsluhúsi Vísis á Djúpavogi fyrir 30 – 35 manns. Samstarf fyrirtækisins og sveitarstjórnarinnar hefi verið til fyrirmyndar þau 15 ár sem Vísir hefur verið með starfsemi á Djúpavogi.

Í samtali við Austurfrétt sagði Pétur Hafsteinn að tíminn yrði nýttur „til að styrkja stoðirnar betur þannig að þessi vinnustaður verði með sem sterkastar stoðir undir sér. Það er verkefni allra sem að málinu koma."

Mynd: Magnús Kristjánsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.