Staðsetning olíuhafnar: Hefur gríðarlega þýðingu ef farið verður að bora

reydarfjordur hofnÁkvörðun Eykon Energy um að velja Reyðarfjörð sem sína aðalhöfn fyrir landþjónustu við olíuleit- og vinnslu hefur lítil áhrif fyrst í stað. Umsvifin verða hins vegar gríðarleg ef borun hefst á Drekasvæðinu. Reynsla svæðisins af því að takast við stórum verkefnum skipti miklu máli við staðarvalið.

„Staðsetningin réði úrslitum á endanum. Það er styttra út þaðan," segir Haukur Óskarsson, framkvæmdastjóri iðnaðar hjá Mannviti og stjórnarmaður í Eykon.

Nokkrir staðir voru skoðaðir en að lokum stóð valið á milli Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, með aðalhöfn á Reyðarfirði, og Akureyrar.

Auk staðsetningarinnar voru það innviðir og reynsla af því að taka á móti stórum verkefnum sem réðu vali Eykon.

„Í kringum álverið og sterkan sjávarútveg hefur þróast mikið af góðum fyrirtækjum sem verða að vera til staðar til að þjónusta svona iðnað," segir Haukur og nefndi þar Launafl, VHE og Hamar.

„Samfélagið er öflugt og það er búið að ljúka skipulagsvinnu fyrir hafnarsvæðin. Við bætist svo pólitískur vilji sveitarfélaganna. Ekki að hann hafi vantað annars staðar en þarna var hann alveg klár."

Eykon er aðili að þriðja og stærsta sérleyfinu á Drekasvæðinu og á í fyrsta leyfinu í gegnum dótturfélagið Kolvetni. Handhafi sérleyfis númer tvö hefur valið Húsavík sem sína starfsstöð.

Haukur segir að lítil áhrif verði af staðarvalinu strax en þau gætu komið í ljósi að ári þegar fyrstu olíuleitarskipin koma til hafnar.

Umsvifin verða fyrst og fremst bundin við hafnarþjónustu en þau verða fyrst veruleg ef borun hefst á svæðinu. Hvort af henni verður skýrist á næstu árum.

„Annars vegar verða þetta vöruflutningar og þjónusta við það sem gerist úti og hins vegar viðgerðaþjónusta við þau tæki sem verða notuð. Ef það verður farið á borstig þá hefur þetta gríðarlega þýðingu, ekki bara fyrir svæðin fyrir austan heldur þjóðfélagið allt."

Í tilkynningu sem Eykon sendi frá sér í dag segir að unnið sé að stofnun félags með heimamönnum um starfsemina. Aðspurður um hvaða heimamenn væri þar um að ræða svaraði Haukur: „Það mun koma í ljós."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.