Vísir staðfestir lokun á Djúpavogi: Skoðunarferð suður undirbúin

visir djupi mk2 webStarfsfólk Vísis á Djúpavogi fékk í dag staðfestingu á ákvörðun Vísis hf. að hætta bolfiskvinnslu á staðnum og flytja til Grindavíkur. Starfsfólki verður á næstunni boðið þangað til að skoða aðstæður og meta hvort það flytji með. Útlit er fyrir að um helmingur starfsmanna haldi vinnunni við þjónustu við fiskeldið í Berufirði.

Starfsmönnum var í dag tilkynnt um að vinna yrði áfram með óbreyttum hætti fram að sumarfríi sem hefst í lok júlí og stendur út ágúst. Eftir fríið hefst hins vegar vinnslan í Grindavík.

„Þeir sem vilja færa sig yfir fara eftir sumarfrí. Það hefur engum verið sagt upp ennþá," sagði Elís Hlynur Grétarsson, framleiðslustjóri Vísis á Djúpavogi í samtali við Austurfrétt í dag.

Vísir tekur að sér slátrun og pökkun á eldisþorski úr Berufirði. Gert er ráð fyrir að um helmingur starfsmannanna fái vinnu þar. Einnig er í boði fyrir starfsmenn að flytja með vinnslunni til Grindavíkur.

Þeim sem vilja býðst á næstunni ferð suður til Grindavíkur til að skoða aðstæður til að geta gert upp hug sinn.

„Það hefur enginn skrifað undir neitt skuldbindandi. Nokkrir hafa lýst sig tilbúna til að fara með. Sumum finnst þetta tækifæri til að breyta til en það eru líka margir sem hafa verið hér lengi og eiga erfitt með að slíta sig upp," segir Elís.

Starfsmaður Vísir kemur í næstu viku austur og mun þá ræða einslega við hvern og einn starfsmann og svara þeim spurningum sem menn kunna að hafa.

Um fimmtíu manns starfa hjá Vísi á Djúpavogi.

Mynd: Magnús Kristjánsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.