Snjóflóðahætta á veginum að nýju Norðfjarðargöngunum? Engin ákvörðun tekin um varnir

fannardalur snjoflod 26032014 hs 5Ráðgjafar sögðu að gera yrði ráðstafanir til að verja veginn að vætanlegum jarðgöngum í Fannardal fyrir snjóflóðum. Forstöðumaður hjá Vegagerðinni segir flóð ekki tíð á svæðinu en staðan verði metin í kjölfar flóðs sem féll nýverið skammt frá gangamunnanum.

Samkvæmt áhættumati um snjóflóðahættu, sem gert var fyrir veginn, er um fjögur gil að ræða í Fannardal þaðan sem talið er að flóð geti fallið. Flóðin eru tíðust í Sörlagili en þaðan eru flóð sögð falla á 5-10 ára fresti. Það gil er um 100 metra frá gangamunnanum og þaðan kom flóðið sem féll um daginn.

Næsta gil er 1000 metra frá og þar er flóðin talin falla á 10-20 ára fresti, þar næsta 1700 metra í burtu og þar falli flóð á 10 ára fresti og það þriðja 2,1 km frá munnanum og snjóflóð talin koma á 20-30 ára fresti. Skýrsluhöfundar láta þó í ljósi það mat sitt í ljósi „að gera verði ráðstafannir til að verja veginn fyrir snjóflóðum."

„Hugsanlegt var talið að gera varnir í einhverjum þessara gilja en ákvörðun um það var frestað," segir Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar. „Það er sem sagt um að ræða tvö gil og almennt eru snjóflóð á 10 ára fresti á veg af þessu tagi ekki mjög mikið."

Hann segir líklegt að gerður verði varnargarður í Sörlagili enda standi til geyma þar efni úr göngunum. Ólíklegt sé að gerðar verði varnir í giljunum þar sem flóðin séu á 20 ára fresti en eftir sé að skoða betur gilið þaðan sem búist sé við flóðum á tíu ára fresti. Ekki hafi verið farið yfir stöðuna eftir flóðið um daginn en það verði gert.

Við hönnun vegarins komust menn að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir snjóflóðahættuna væri hentugra að leggja veginn sunnan megin í Fannardal en ekki að norðan. „Það var skipulagslega verra, þar norðan ár er fjölbreyttara land og nýtur betur sólar og meðal annars eru þar sumarbústaðir. Landið þar er líka ósléttara og hentar síður til vegagerðar. Eini gallinn að sunnan er að þar er snjóflóðahætta á nokkrum stöðum."

Þótt vegurinn hefði legið að norðanverðu hefði ekki verið hægt að sleppa við gilin tvö sem næst séu göngunum. „Flóðið sem féll um daginn fór ekki niður á fyrirhugaðan veg og stöðvaðist raunar sennilega á stað með litlum halla. Það var mikil snjór í fjöllum og síðan kom asahláka og því virðast hafa verið ákjósanlegar aðstæður fyrir snjóflóð," segir Gísli.

Mynd: Hlynur Sveinsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.