Veðrið gengið niður og byrjað að moka

Óveður á Austurlandi

Óveðrið sem geisað hefur á Austurlandi undanfarna þrjá daga er gengið niður. Mokstur stendur yfir á öllum helstu leiðum.

Það var upp úr kvöldmat í gær sem veðrið fór að ganga niður. Eftir það sló samt út rafmagni í spennistöðinni á Hryggstekk í Skriðdal og voru íbúar á Upphéraði án rafmagns í nokkra klukkutíma.

Tveir hópar frá Björgunarsveitinni Héraði voru að störfum í allan gærdag við almenna ófærðaraðstoð, draga upp bíla, aka heilbrigðisstarfsfólki til og frá vinnu og koma matarbökkum til eldri borgara. 

Snjóbíllinn var nýttur í gærmorgun til að koma heyi til hrossa við Finnsstaðaholt og þaðan fór hann í aðstoð við Landsnet en gæta þarf að ísingu á rafmagnslínum í veðrinu.

Snjómokstur stendur yfir á flestum vegum Austurlands, Fjarðarheiði, Skriðdal, Möðrudalsöræfum og á leiðinni til Borgarfjarðar. Fært er orðið yfir Fagradal og Fjarðarheiði. 

Þá er verið að moka íbúagötur í þéttbýli, til að mynda á Egilsstöðum þar sem miklum snjó kyngdi niður í óveðrinu.

Flugsamgöngur eru óðum að komast í samt horf en ekkert hefur verið flogið milli Egilsstaða og Reykjavíkur síðan á miðvikudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.