Áhersla á hógværð og friðsemd í austfirsku miðlunum: Ekki hægt að ganga um og fleygja táragassprengjum

hrafnkell larusson mars14Hógvær og friðsöm fréttastefna var almennt í fyrirrúmi á austfirsku svæðisblöðunum frekar en ágengni og aðhaldssemi þótt þau hafi einnig reynt að sinna því hlutverki. Ákveðið tómarúm hefur skapast í austfirskri fjölmiðlun eftir að útsendingum svæðisútvarpsins var hætt.

Þetta er meðal niðurstaðna rannsókna Hrafnkels Lárussonar sem vinnur að doktorsverkefni í sagnfræði en hann hefur kannað austfirska fjölmiðlun í áranna rás.

Útgáfusagan er nær óslitin frá því að Skuld kom fyrst út á Eskifirði árið 1877. Hún var slitrótt á köflum en samfelldari eftir að Austri og Austurland komu fram á sjónarsviðið í Neskaupstað á sjötta áratugnum.

Bæði blöðin voru flokksblöð. Austurland blað sósíalista en Austri blað Framsóknarmanna. Ritstjórn þess færðist síðar upp í Egilsstaði um miðjan áttunda áratuginn. Blöðin voru rekin af hugsjón og af sjálfboðaliðum frekar en í atvinnuskyni.

Hrafnkell segir að þegar fram liðu stundir hafi flokkspólitíkin ekki verið áberandi nema í leiðurum og mögulega fyrir kosningar. Annars hafi þau verið fréttablöð sem sinntu málefnum Austurlands og sköpuðu vettvang fyrir umræðu um málefni svæðisins og skoðanaskipti.

Eftir að útgáfu Austra var hætt árið 2000 og Austurlands 2001 kom Austurglugginn fram á sjónarsviðið í ársbyrjun 2002 og hefur komið út óslitið síðar. Líkt og fyrri blöðin tvö voru ritstjórnarskrifstofur hans fyrstu árin í Neskaupstað.

Hrafnkell segir austfirsku blöðin hafa lagt mesta áherslu á upplýsingahlutverk sitt, síðan umræðuhlutverkið en minnst hafi farið fyrir aðhaldinu. Fréttastefnurnar hafi verið hógværar og friðsamar frekar en ágengar og aðhaldssamar.

Á þessu hafi þó verið blæbrigðamunur á milli ritstjóra og viðfangsefna. Aðhaldshlutverkið hafi meðal annars birst í formi gagnrýni á ríkisvaldið, til dæmis ef opinber þjónusta var skorin niður.

Fréttamenn hafi reynt að nálgast viðkvæm viðfangsefni „á hófstilltu nótunum" fremur en að stunda „harðhausablaðamennsku" og „ fleygja táragassprengjum."

Hrafnkell segir það hafa komið fram í viðtölum sem hann tók við fyrrum starfsmenn austfirsku miðlanna að þrýstingur hafi verið á það innan fjórðungsins að fréttir þeirra væru almennt með jákvæðu yfirbragði, þar á meðal að koma með jákvæðara sjónarhorn á fréttir sem birst hefðu í landsmiðlunum.

Tengslin eru líka önnur hjá héraðsfréttamönnum en þeim sem vinna á landsvísu. „Í fámennu samfélagi hittirðu kannski viðmælanda eða einhvern sem var til umfjöllunar í síðasta blaði í verslun eða heita pottinum daginn eftir útgáfu."

Hrafnkell hefur einnig kannað breytingu á þjónustu Ríkisútvarpsins eftir að reglubundnum svæðisútsendingum var hætt í upphafi árs 2010. Hann segist gera greinarmun á ábyrgð fjölmiðils sem kostaður sé af almannafé eða þeim sem eru einkareknir.

Hrafnkell segir þær þrjátíu milljónir sem átti að spara í rekstri RÚV með að hætta svæðisútsendingum ekki háa upphæð í heildarútgjöldunum og á fyrirlestri í síðustu viku talaði hann um „stefnubreytingu en ekki sparnað."

„Við þessa ákvörðun varð Austurland fyrir mikilli þjónustuskerðingu af hálfu almannaútvarpsins. Samfélagsumræða og upplýsingadreifing innan svæðis hefur dregist stórlega saman, vitneskja fólks um hvaða er að gerast í þeirra nærsamfélagi er takmarkaðri og aðhald með hagmunaaðilum og stjórnsýslu á svæðinu hefur ekki verið söm síðan."

Hrafnkell verður meðal frummælenda á málþingi um mikilvægi svæðisbundinna fjölmiðla sem Austurfrétt og Austurglugginn standa að á Egilsstöðum á laugardag. Aðrir frummælendur eru Gísli Einarsson, ritstjóri Landans, Birgir Guðmundsson frá Háskólanum á Akureyri og Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.