„Okkur finnst að ríkisstjórnin eigi nú að fara að vakna"

visir djupi mk3Trúnaðarmaður starfsmanna hjá Vísi hf. á Djúpavogi kallar eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar eftir að tilkynnt var um að til standi að leggja af bolfiskvinnslu fyrirtækisins á staðnum. Hann óttast að aðgerðirnar hafi keðjuverkandi áhrif.

„Fólk er felmtri slegið, eiginlega miður sín en reynir að vera bjartsýnt," segir Reynir Arnórsson, trúnaður starfsmanna hjá Vísi hf. á Djúpavogi.

Á föstudag voru kynnt áform um að loka vinnslum fyrirtækisins á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík og flytja alla vinnslu til Grindavíkur. Um fimmtíu manns hafa vinnu hjá fyrirtækinu á hverjum stað.

Bolfiskvinnslunni verður hætt í sumar en framvegis stendur til að Vísir sjái um slátrun og vinnslu fyrir Fiskeldi Austfjarðar sem er með kvíar í Berufirði. Nokkuð virðist á reiki hversu margir fái vinnu þar en talað er um að það verði 15-25 einstaklingar.

Það þýðir að störfum fækkar á Djúpavogi um 25-35 eða um 20-30% af þeim sem eru á vinnumarkaði í byggðarlaginu. Þeir sem hafa búið á Djúpavogi hafa forgang að störfum við fiskeldið en öðrum býðst stuðningur við flutning til Grindavíkur.

„Þetta snýst ekki bara um fólkið í Vísi," segir Reynir þegar hann lýsir áhyggjum sínum af afleiðingunum fyrir byggðarlagið. Þeir sem missi vinnuna eigi fjölskyldur á staðnum sem þurfi þá að rífa sig upp og við það fækki í skólanum. Eins hafi töluverð þjónusta verið keypt af iðnaðarmönnum á staðnum.

„Það er ekkert annað um það að ræða fyrir margt af þessu fólki en flytja með fyrirtækinu, það er að segja ef það er ekki búið að kaupa sér fasteignir hér."

Að auki fer allur kvóti með úr byggðarlaginu. Reynir segir framkvæmdastjóra Vísis hafa fundað með starfsfólki á Djúpavogi í dag og hafa sagt að til greina að frysta þorsk og ýsu á staðnum. Þá standi til að skip Vísis landi áfram á staðnum þegar þeir séu að veiðum úti fyrir Austfjörðum. Slíkt er þó bara hluti af þeim umsvifum sem eru á staðnum í dag.

Reyni r segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með takmörkuð viðbrögð þingmanna og ríkisstjórnar eftir að áformin voru tilkynnt.

„Þetta samsvarar því að 3000 manns væri sagt upp á stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég held að þá kæmi hljóð úr horni og þingmenn myndu ranka betur við sér en þeir hafa gert.

Okkur finnst að ríkisstjórnin eigi nú að fara að vakna. Hún á að taka sér tíma í að ræða þetta mál."

Reynir nefnir sem dæmi að unnið sé í uppbyggingu raflínu frá Hellisheiði til Hafnarfjarðar og áfram út á Suðurnes sem njóti ríkisstuðnings. „Ég velti fyrir mér hver atvinnustefna ríkisins sé. Er þá ekki hægt að finna skattaívilnanir til okkar Djúpavogsbúa til að halda áfram með þetta fyrirtæki?"

Mynd: Magnús Kristjánsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.