Leikskólabörn á Vopnafirði kynna sér brunavarnir

vis leikskoli vpfjBörnin á leikskólanum Brekkubæ á Vopnafirði láta ekki sitt eftir liggja í brunavörnum þar á bæ. Mánaðarlega gegna þau elstu hlutverki aðstoðarslökkviliðsmanna og fara með leikskólakennara um bygginguna til að taka út brunavarnir.

Þau skoða meðal annars hvort slökkvitæki og brunaslöngur séu yfirfarin reglum samkvæmt, hvort útljós og neyðarljós séu í lagi og hvort brunaviðvörunarkerfið virki. Börnin merkja samviskusamlega við á gátlista sem þau afhenda leikskólastjóranum.

Ef einhverju er ábótavant eru þau upplýst um þegar því hefur verið kippt í liðinn. Til að þau séu sem best í stakk búin að gegna þessu skemmtilega hlutverki heimsækja þau slökkvilið Vopnafjarðar árlega og fá þar fræðslu frá fyrstu hendi.

Einar Björn Kristbergsson þjónustustjóri VÍS á Vopnafirði fylgdist með eftirliti barnanna fyrir skemmstu og hreifst af.

„Það var mjög gaman að sjá hvað þau voru bæði áhugasöm og samviskusöm. Eljan skilar sér svo heim í betri brunavörnum þar. Svona eftirliti þyrfti einnig að vera á öllum vinnustöðum og fyrst yngstu börnin eru fær um slíkt með smá aðstoð, þá ætti nú þeim fullorðnu ekki að vera skotaskuld úr því. Það væri greinilega af hinu góða að hinir eldri tækju ungviðið sér til fyrirmyndar í þessum efnum."

Í því sambandi bendir Einar Björn á öryggis- og forvarnaráðstefnu VÍS og Vinnueftirlitsins sem haldin verður í Hofi á Akureyri 2. apríl næstkomandi. Þangað megi m.a. sækja sér fróðleik um hvernig fyrirtæki og stofnanir geti tekið upp „eigið eldvarnaeftirlit" á sínum starfsstöðvum.

„Með reglubundnu eftirliti og einföldum brunavörnum má draga verulega úr líkum á að eldur og reykur geti ógnað öryggi starfsmanna, valdið tjóni eða skaðað reksturinn með öðrum hætti. Þetta eru einfaldar og kostnaðarlitlar aðgerðir sem ættu að vera sjálfsagður hlutur í öllum rekstri og í raun liður í gæða- og öryggismálum viðkomandi."

Á ráðstefnunni segir Dalvíkingurinn Kristján Guðmundsson frá því þegar hann stórslasaðist við löndun, lét næstum lífið og hvernig vinnuveitandinn brást við í kjölfarið með úrbótum á vinnulagi. Aðgangur á ráðstefnuna er ókeypis en þátttakendur þurfa að skrá sig á vef VÍS þar sem allar frekar upplýsingar er að finna.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.