Þörf á átaki í eldvörnum í sveitum: Getum ekki látið bændur rífa húsin sín og endurbyggja þau

eldvarnafundur sveitir 0007 webVíða þarf að taka öryggismál í sveitum til gagngerrar skoðunar. Slökkviliðsstjóri Fljótsdalshéraðs hvetur bændur til að setja upp brunaviðvörunarkerfi í útihúsum. Breytt notkun á útihúsum og aukin skógrækt eru meðal þeirra þátta sem sérstaklega þarf að skoða með tilliti til eldhættu.

Þetta var meðal þess sem fram kom á fræðslufundi sem haldinn var á Egilsstöðum á mánudag en frummælendur voru þeir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Fljótsdalshéraðs og Guðmundur Hallgrímsson, slökkviliðsmaður í Borgarbyggð og verkefnastjóri hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands.

Tilefni fundarins var meðal annars að eldur kviknaði í raflyftara sem geymdur var í hlöðu á sveitabæ á Fljótsdalshéraði fyrr í vetur. Þar tókst snarlega að slökkva glóðina en illa hefði getað farið og allt fjósið brunnið ef ábúendur hefðu ekki verið nálægt.

Baldur sagði það „óheillaþróun" að víða hefðu hlöður breyst í vélageymslur. „Vélageymslur eiga ekki að vera áfastar gripageymslu," sagði Baldur. Slíkt skapi bæði eld- og sprengihættu.

Hann rifjaði einnig upp bruna á fjárhúsum í Möðrudal fyrir nokkrum árum þar sem kviknaði í út frá rafmagni. „Ef rafmagnið er farið að slá óeðlilega oft út, farið og athugið hvað er í gangi."

Ekki kaupa neitt nema vera viss um að það standist kröfur

Baldur talaði sérstaklega um plasteinangrun sem er víða í þökum gripahúsa. Hún getur verið stórhættuleg því ef kviknar í húsinu þá verður til eldregn sem steypist yfir skepnurnar. Baldur segir plastið ekki standast byggingareglur og hafi aldrei gert. Erfitt sé hins vegar að skikka bændur til að fjarlægja það umsvifalaust. „Við getum ekki látið bændur rífa niður húsin sín og endurbyggja þau."

Því sé nauðsynlegt að finna millileið. Í Noregi er skylda að vera með svokölluð sogbrunakerfi. Þau eru með einni miðstöð með reykskynjurum og sogdæla en út frá henni kassanum loftrör sem safna saman sýnum úr loftslagi hússins.

Fleiri brunakerfi eru til fyrir gripahús en Baldur segir sogkerfin þau sem reynst hafi best og önnur kerfi séu ekki viðurkennd í Noregi. Önnur kerfi eigi það til að fara í gang í tíma og ótíma. Það verði til þess að menn rífi þau úr sambandi og þá eru þau ekki til neins gagns. „Aldrei að kaupa neitt fyrr en kanna fyrst hvort það standist kröfur."

Alls staðar hætta þar sem sumarbústaðir eru í skógi

Guðmundur hefur undanfarin ár leitt átak í öryggismálum og þar áður brunavörnum á vegum Búnaðarsambands Vesturlands. Í því átaki fólst meðal annars að heimsækja bæi, fara yfir slökkvitæki, gera áætlanir um rýmingu útihúsa, vinna hættumat fyrir býlið og útbúa upplýsingamöppu fyrir slökkvilið. „Sveitarfélög eiga að sjá um brunavarnir en því er víða ábótavant," sagði hann.

Í Borgarbyggð hafa menn töluverða reynslu af gróðurbrunum, einkum eftir Mýrareldana árið 2006. Guðmundur segir sinubrunana helstu ógnina í dag sem flestir fari úr böndunum eftir íkveikjur.

Ýmislegt má gera til að reyna að fyrirbyggja útbreiðslu þeirra. Meðal annars má skipta svæðum upp í brunahólf og ljóst er að svæði þar sem beit er stunduð brenna síður. „Eldurinn stoppaði við hestagirðingarnar."

Þá megi planta lauftrjám sem brenni seint og eins megi reyna að setja upp úðalagnir sem slökkviliðið getur nýtt sér þegar það kemur á svæði. „Það er alls staðar hætta þar sem sumarbústaðir eru í skógi."

Vítahringurinn felist í því hver eigi að gera kostnað af brunavörnunum, til dæmis við sumarbúðstaðasvæði. Sveitarfélögin velti honum yfir á landeiganda, sá reyni að koma kostnaðinum á búðstaðaeigendur. Það geri samkeppnisstöðu hans mögulega verri og á endanum borgi enginn og ekkert gerist.

Bæði Guðmundur og Baldur töluðu um að mikilvægt væri að læra af atburðum eins og Mýrareldunum. Eitt af því sem Borgfirðingar lærðu á sínum tíma var mikilvægi góðrar samvinnu við bændur.

„Ef eitthvað svona gerist aftur þarf strax að fá olíubíl. Haugsugurnar gerðu mesta gagnið og það voru allir til í að koma. Bændurnir keyrðu 100.000 lítrum af vatni í einu en það fór að vanta olíuna."

Menn sofa rórri

Búnaðarsamtök Vesturlands hafa staðið fyrir innflutningi á brunavarnakerfi frá Noregi sem komið er í um tuttugu fjós á landinu. Guðmundur segir aukið öryggi hafa víðtæk áhrif á heilsu bænda.

„Menn geta verið sofandi þegar kviknað í og vaknað við lætin þegar útihúsið er að hrynja. Inni í því eru allir gripir og jafnvel ævistarfið. Það vita allir af hættunni og menn eru að vakna upp á nóttunni út af áhyggjum. Rannsóknir á líðan bænda frá Noregi sýna að fólk verður mun rólegra eftir að viðvörunarkerfin eru komin upp."

Óásættanleg tíðni vinnuslysa

Hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands hefur einnig verið þróað innra eftirlitskerfi fyrir sveitabæi. Með því er reynt að draga saman þá þætti sem eftirlitsgildir eru á sveitabæjum þannig ábúendur geti sjálfir metið ástandið. Hvatinn að því voru meðal annars háar tölur um vinnuslys í landbúnaði.

„Það er mun meira um slys en manni dettur í hug. Að meðaltali slasast einn á dag allt árið þannig hann er frá vinnu í meira en hálfan mánuð. Það er alls ekki ásættanlegt."

Tilgangur eftirlitskerfisins er að tryggja öryggi þeirra sem starfa við búrekstur, draga úr slysum og bæta líðan þeirra en tölur sýna fram á töluvert þunglyndi meðal þeirra.

„Margir eru einir heima allan daginn og vissulega reynir það á menn. Það þýðir ekki að berja hausnum við steininn með það," sagði Guðmundur og bætti við að skýringar á bakvið fréttir af illri meðferð á dýrum, svo sem vanfóðrun, megi oft rekja til andlegra vandræða þeirra sem annist dýrin.

Markmiðið er að gera búið að aðlaðandi og eftirsóknarverðum vinnustað enda er bætt ásýnd búa meðal þess sem farið er yfir í matinu,

„Stefnan er að bóndinn verði fær um að annast innra eftirlitið sjálfur, hvað varðar áhættumat, öryggi véla og rafmagns og ásynd býlis. Því ræður engu nema bóndinn sjálfur þangað til í óefni er komið."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.