Nýjum ráðherra fylgja alltaf nýjar áherslur: Unnið að mótun landsskipulagsstefnu

ester anna armannsdottir skipulagAustfirðingum gafst kostur á að koma á framfæri hugmyndum sínum við mótun landsskipulagsstefnu á fundi á Egilsstöðum fyrir skemmstu. Þetta er í annað sinn sem farið er af stað með slíka vinnu hérlendis. Austfirðingar lögðu meðal annars áherslu á aukið skipulagsvald sveitarfélaga við strandsvæði.

Skipulagsstefnan felur í sér áætlun í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun. Hún kemur til dæmis inn á samgönguáætlun og byggðaáætlanir.

Stefnan tekur til þátta eins og skipulags á hálendinu, dreifingu byggðar, skipulag haf- og strandsvæða og landnotkun í dreifbýlis.

Þetta er í annað skiptið sem ráðist er í ferlið en síðasta vor var lögð fram þingsályktunartillaga sem ekki fór alla leið. Ferlið er því farið af stað og gert ráð fyrir að því ljúki vorið 2015 með afgreiðslu Alþingis.

„Þetta eru að mestu sömu áherslur og sömu viðfangsefni en nýrri stjórn og nýjum ráðherra fylgja alltaf einhverjar breytingar. Við byggjum á fyrri vinnu og höfum lært margt og fengið reynslu," sagði Ester Anna Ármannsdóttir frá Skipulagsstofnun.

Meðal þess sem bættist við í annarri tilraun var starfshópur um landnotkun í dreifbýli.

Stefnan hefur verið í athugasemdaferli að undanförnu en fulltrúar Skipulagsstofnunar kynntu hana á fundi á Egilsstöðum fyrir skemmstu sem var vel sóttur af fulltrúum austfirskra sveitarfélaga.

Þeir bentu meðal annars á hvernig uppbyggingu samgangna og raflínukerfa skyldi háttað sem og skipulagi miðhálendis og dreifingu mannvirkja þar. Þá var hvatt til þess að sveitarfélög fengu skipulagsvald eina sjómílu út frá sínum ströndum í stað 115 metra í dag.

Þeir lögðu einnig áherslu á uppbyggingu vega á láglendi, að orka sé nýtt sem næst þeim stað þar sem hún er upprunnin, að landeigendur séu tiltölulega frjálsir að nýtingu á jörðum sínum og tekin verði frá þau svæði sem þurfi að vernda áður en ráðist verði í uppbyggingu iðnaðar.

Gert er ráð fyrir að tillaga að stefnan verði auglýst í haust og þá gefst almenningi tækifæri á að gera við hana athugasemdir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.