Sakar meirihlutann um að reyna ítrekað að leggja stein í götu Lónsleiru

seydisfjordurVarabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seyðisfirði sakar bæjaryfirvöld um að hafa ítrekað reynt að „leggja stein í götu" Lónsleiru ehf. sem byggir tvö íbúðahótel á Seyðisfirði. Bæjarstjórinn segir þvert á móti að aukafundir hafi verið haldnir til að reyna að vinna að framgangi málsins.

„Mér þykja vinnubrögð meirihlutans einkennast að einelti í þeirra garð. Allt frá upphafi hefur verið reynt að leggja stein í götu þeirra. Alltaf hefur komið eitthvað upp á til að tefja ferlið sem síðar stenst ekki," segir Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Lónsleira ehf. stendur fyrir byggingu tveggja íbúðahótel við Lónsleiru 7 og 9 á Seyðisfirði. Eigendur þess eru Guðrún Katrín Árnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar sem jafnan hefur vikið sæti þegar málefni fyrirtækisins hafa verið til umræðu í þeim nefndum sem hún situr og sambýlismanns hennar, Sigurðar Gunnarssonar.

„Ég hef alltaf passað upp a það i bæjarstjórn að víkja þegar mitt fyrirtæki er til umfjöllunar ," segir Guðrún.

Ráðuneytið úrskurðar gjaldheimtu ranga

Bæjarráð ákvað í ágúst 2012 að leggja að flokka íbúðahótelið sem verslunar- og skrifstofuhúsnæði við ákvörðun gatnagerðargjalda, en sá flokkur ber hæsta gjaldið.

Engin mótatkvæði eru bókuð á bæjarráðsfundinum en Guðjón Már Jónsson, sem sat í stað Guðrúnar, segist hafa gert athugasemdir við afgreiðsluna. „Ég taldi að bæjarfélaginu bæri að fara eftir þeirri gjaldskrá sem var í gildi," sagði Guðjón í samtali við Austurfrétt en bætti við að það hefði verið hans „feill" að láta ekki afstöðu sína koma fram í fundargerðinni.

Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri sem situr í bæjarstjórninni fyrir Framsóknarflokkinn, segir ýmislegt hafa verið rætt, meðal annars hvort flokka ætti hótelíbúðirnar sem íbúðarhúsnæði.

Gjöldin voru lögð á í fyrrasumar. Í kjölfarið kærðu forsvarsmenn Lónsleiru álagninguna til innanríkisráðuneytisins sem um miðjan janúar úrskurðaði þeim í hag og benti á að réttast væri að flokka hótelíbúðirnar sem húsnæði fyrir iðnað eða aðra atvinustarfsemi, til samræmis við þá gjaldskrá sem gilti þegar gjöldin voru lögð á.

„Ég ræddi það samt"

Málið kom til umfjöllunar í bæjarráði strax í kjölfarið en afgreiðslu var frestað. Tvennt virðist borið þar til. Annars vegar ósk Guðrúnar um að málið yrði ekki afgreitt á fundi sem hún sæti, hins vegar var búið að óska eftir áliti lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga á úrskurðinum.

„Við töldum ýmislegt orka tvímælis, meðal annars vildum við vita hvernig nýja gjaldskráin stæði með hliðsjón af úrskurðinum. Ég bar undir sambandið hvort rétt væri að fara yfir úrskurðinn og þeir töldu ástæðu til þess," segir Vilhjálmur og bætir við að alvanalegt sé að annað hvort sambandið eða lögfræðingar sveitarfélaga fari yfir úrskurði sem þessa og veiti álit sitt áður en næstu skref eru ákveðin.

Næsti bæjarráðsfundur var viku síðar en þar var málið ekki á dagskrá. Anna Guðbjörg, sem sat þann fund í fjarveru Guðrúnar, segist hafa óskað eftir að málið yrði tekið rætt en fengið þau svör frá fulltrúum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að málið væri ekki á dagskrá og ekki ætti að ræða það. „Ég ræddi það samt," segir hún.

Deiliskipulag og kvistir

Fleiri dæmi en gatnagerðargjöldin eru nefnd sem dæmi um að bæjaryfirvöld hafi unnið gegn Lónsleiru. Þegar ráðist var í framkvæmdina kom í ljós að deiliskipulag fyrir svæðið hafði aldrei verið klárað. Fyrirtækið fékk því arkitekt til að vinna að breyttu skipulagi og óskaði síðan eftir að bærinn greiddi þá vinnu.

Deiliskipulagið var ítrekað á dagskrá bæjarráðs fyrri hluta árs 2013. Á einum fundinum er bókað að lagt hafi verið fram álit lögfræðings og á grundvelli þess var kröfunni hafnað. Bærinn féllst síðar á að bera kostnað af breyttu skipulagi.

Á fundi umhverfisnefndar í febrúar var einnig tekin fyrir erindi frá Lónsleiru um leyfi fyrir breytingum á teikningum þannig að á þau kæmu kvistir sem snúi í austur. Í bókun setur nefndin fram sínar kröfur og bætir því við að mat hennar sé að kvistir með einhalla falli ekki nægilega vel að hverfisvernd svæðisins.

„Skil ekki hvernig farið hefur verið með þau og þetta fyrirtæki"

Meðferð gatnagerðargjaldanna er helsa ágreiningsmálið nú. „Það líður og bíður og það kemur ekkert svar," segir Anna Guðbjörg.

Þann 19. febrúar lögðu hún og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna, Þórunn Hrund Óladóttir, fram bókun í bæjarráði þar sem þær vildu að málinu yrði lokið tafarlaust í samræmi við ráðleggingarnar í úrskurði innanríkisráðuneytisins. Þá var liðinn rúmur mánuður frá því úrskurðurinn var fyrst á dagskrá bæjarráðsins.

„Málið var búið að vera lengi hjá lögfræðingum og okkur þótti vera búið að teygja lopann nóg. Ég skil ekki hvernig farið hefur verið með þau og þetta fyrirtæki."

Í svari við fyrirspurn frá Austurfrétt sagði yfirlögfræðingur sambandsins að það hefði tekið hann nokkrar vikur að skrifa álit sitt á úrskurðinum. Hann staðfesti að hann hefði óskað eftir því að málið yrði ekki afgreitt fyrr en hann væri búinn með álit sitt.

Vilhjálmur hafnar því að meirihlutinn hafi af ásettu ráði tafið fyrir framkvæmdum Lónsleiru. Þetta snúist ekki um minni- eða meirihluta heldur séu ákvarðanirnar í höndum ráða og nefnda oft á tíðum. Hann heldur því þvert á móti fram að reynt að vinna að framgangi framkvæmdanna. „Það hafa verið haldnir aukafundir til að reyna halda dampi í málinu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.