Egilsstaðaflugvöllur langarðsamasti flugvöllurinn: 50 milljarðar á 40 árum til samfélagsins

flug flugfelagislands egsflugvFlug milli Reykjavíkur og Egilsstaða er samfélagslega ábatasamasta flugleið landsins. Þjóðfélagslegur ábati af flugi um Egilsstaðaflugvöll er talinn nema yfir fimmtíu milljörðum króna á næstu fjörutíu árum.

Þetta kemur fram í félagshagfræðilegri greiningu á framtíð áætlunarflugs innanlands sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið

Auk Egilsstaða eru flugleiðirnar til Akureyrar og Ísafjarðar taldar þjóðhagslega arðsamar. Samfélagsleg arðsemi af hverri útgjaldakrónu hins opinbera fyrir flugið um Egilsstaðaflugvöll er talin 3,51 króna og ábati á næstu fjörutíu árum tæpir 52 milljarðar króna. Arðsemi af flugvellinum er metin á 250-350%.

Ýmsir þættir hafa áhrif á þennan samfélagslega ábata. Fram kemur að afleiðingar á heilsu og öryggi, atvinnu, menntun, aðgengi að þjónustu, fjölskyldutengsl og menningu yrðu þó nokkuð eða verulega neikvæðar ef fluginu yrði hætt.

Sparað með fækkun slysa

„Af niðurstöðum verkefnisins er ljóst að flug er ávallt öruggasti ferðakosturinn og sérstaklega á leiðum frá Bíldudal, Ísafirði, Gjögri og Egilsstöðum," segir í skýrslunni.

Flugið var borið saman við aðra kosti, en í flestum tilfellum var akstur hafður til samanburðar. Þannig er áætlað að flugið í Egilsstaði spari 5,5-11 milljarða á þessum fjörutíu árum í fækkun slysa, 300-1200 milljónir í loftmengun og loftslagsáhrif og 190-414 milljónir í vegslit.

Áhrifasvæði hvers flugvallar er metið í um 45 mínútna akstursfjarlægð sem þýðir að áhrifasvæði Egilsstaðaflugvallar nær um allt hérað og suður á Stöðvarfjörð.

Flugið er hagkvæmasti kosturinn fyrir einstaklinga, hvort sem er í vinnu eða frítíma. Fyrir hópa eða kjarnafjölskylduna borgar sig hins vegar mögulega að keyra.

Stórnotendur hvergi fleiri en á Egilsstöðum

Við greininguna var meðal annars kannað hvernig farþegar nýta flugið. Þannig kom í ljós mikill munur á notkun flugs á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Um 70% íbúa höfuðborgarsvæðisins höfðu ekki flogið á því árstímabili sem spurt var um í könnuninni en 51% íbúa landsbyggðarinnar hafði ekki gert það. Á áhrifasvæði Egilsstaðflugvallar var hlutfallið undir 50%.

En einnig kom í ljós töluverður mismunur á því hvernig íbúar í kringum hvern flugvöll nýta hann. Þannig voru stórnotendur hvergi fleiri en á Egilsstöðum en 10% flugfarþegar hafði farið í tíu ferðir eða fleiri.

Þá skera flugfarþegar á svæðinu sig einnig úr fyrir hversu margir velja frekar að fljúga út af ófærð. Um 80% farþega gáfu upp þá ástæðu og voru hvergi fleiri. Um 90% segjast vera að spara tíma og 70% kusu þægindi. Hægt var að merkja við fleiri en einn svarmöguleika.

Flugið skiptir konur meira máli en karla

Flugið virðist líka mis mikilvægt eftir kynjum. Hærra hlutfall kvenna hafði flogið heldur en karla og þær borguðu frekar flugið sitt sjálfar. Kostnaðarþol þeirra er minna.

Mikill munur kom líka í ljós eftir kynjum á því hversu líklegir einstaklingarnir væru að flytja af svæðinu ef flugi væri hætt. Rúm 20% kvenna á áhrifasvæði Egilsstaðaflugvallar sögðust líklegar til að flytja ef fluginu yrði hætt. Um 70% kvenna töldu sig ólíklegar til að flytja en aðeins 40% karla. Hlutfall ólíklegra var hvergi lægra, nema í Grímsey sem skar sig úr.

Flugið hefur áhrif á fjölskyldutengsl

Þeir tekjuhærri fljúga frekar en meðalkostnaðarþol virðist vera 10-15 þúsund krónur. Íbúar á svæðinu í kringum Egilsstaði eru líklegri til að sækja sér menntun í gegnum flugið en aðrir en hlutfall þeirra sem sækja heilbrigðisþjónustu er svipað þar og annars staðar. Fimmtán prósent flugfarþega frá Egilsstöðum fara til að sækja íþróttaviðburði og er það hæsta hlutfallið í þeim flokki.

Flugið verður fyrir valinu í 80% þeirra ferða sem farnar eru á vegum fyrirtækja að austan. Hlutfallið var hvergi hærra. Um helmingur fyrirtækjarekenda telja að brotthvarf áætlunarflugs myndi hafa mjög mikil eða mikil áhrif á reksturinn.

Um 70% farþega um Egilsstaðaflugvöll telja að þeir fljúgi mun sjaldnar verði innanlandsflugið fært til Keflavíkur. Flugið skiptir líka miklu máli upp á fjölskyldutengsl. Ríflega 80% aðspurðra höfðu farið til höfuðborgarsvæðisins til að hitta fjölskyldu, vini eða að fara í frí á tímabilinu júní 2012 - júní 2013. „Hlutfallið er lægst fjærst borginni þar sem kostnaður af heimsókn er mestur, það er á Austurlandi."

Við útreikningana er reiknað með 1-6% fjölgun farþega um Egilsstaðaflugvöll á næstu tíu árum. Aðfluttir nota flugið mun meira en innfæddir og konur eru fjölmennari í hópi aðfluttra. Þá virðist almenningur ekki nægilega vel að sér um afsláttarkjör og netfargjöld.

Í greiningunni var fjallað um áhrif flugs um flugvellina á Akureyri, Ísafirði, Húsavík, Bíldudal, Grímsey, Gjögri, Þórshöfn, Vopnafirði, Höfn og í Vestmannaeyjum auk Egilsstaða.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.