Árni Gunnars: Framtíð innanlandsflugs björt ef opinber gjöld lækka og áfram verður völlur í borginni

arni gunnarsson flugfelagForstjóri Flugfélags Íslands segir að lækka verði opinberar álögur á innanlandsflug til að ná niður kostnaði og lækka fargjöld. Hann segir forsvarsmenn félagsins líta á flugleiðir félagsins sem almenningssamgöngur.

„Framtíð innanlandsflugs gefur verið björt en einungis ef opinber gjöld lækka og flugstarfsemi fær áfram að vera í höfuðborginni," voru lokaorð Árna Gunnarssonar, forstjóra Flugfélagsins, í framsöguræðu hans á fundi um innanlandsflug sem haldinn var á Egilsstöðum í hádeginu í dag.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi efndi til fundarins en meginumræðuefni hans voru dýr flugfargjöld.

Árni bar fargjöld í innanlandsfluginu meðal annars við álíka langar flugleiðir annars staðar á Norðurlöndunum. Niðurstaða hans var sú að fargjöldin hér væru álíka dýr eða ódýrari en þar. Aðrir fundarmenn bentu þó á að þar stæðu mönnum til boða fleiri kostir, svo sem lestir.

„Við höfum ítrekað að flugið er almenningssamgöngur og við lítum á það sem slíkt. Ég tek undir með þeim sem tefla fram lækkun á kostnaði við innanlandsflug sem jöfnunaraðgerð," sagði Árni.

Árni kvartaði sérstaklega undan hækkun opinberra gjalda í flugrekstri sem hann sagði hafa fjórfaldast á tíu árum, þar af tvöfaldast síðustu fjögur ár. Nú sé svo komið að tekjur ríkisins af gjöldunum hafa lækkað frá 2012 þótt skattlagning aukist á hvern farþega. Sértæk opinber gjöld sem leggjast á flugið eru um 10% af heildar rekstrarkostnaði Flugfélags Íslands.

Rúmur helmingur borgar flugið úr eigin vasa

Um níutíu þúsund farþegar fóru með Flugfélaginu til Egilsstaða á síðasta ári en það er næst vinsælasti áfangastaðurinn á eftir Akureyri. Það er nokkru færri heldur en á stóriðjutímanum en þá nærri tvöfaldaðist farþegafjöldinn frá því sem hann var.

Í þjónustukönnunum Flugfélagsins hefur komið fram að flestir eða 25% ferðast í viðskiptaerindum, 20% eru að heimsækja fjölskyldu og vini og 17% að fara í frí. Rúmlega helmingur farþega borgar farið sitt sjálfur en ættingjar bjóða um 7% upp á flugið.

Félagið flýgur 2-4 sinnum á dag milli Reykjavíkur og Egilsstaða og er sætanýting um 70%. Farþegar virðast almennt sáttir við þjónustu Flugfélagsins en óánægðir með verðið.

Árni segir talsverða verðteygni í fluginu og augljóst að farþegar fljúgi frekar þegar verðið sé ódýrara. Ef tekið yrði upp flatt gjald yrði það um 15.000 krónur en reynsla annars staðar frá sýni að eitt gjald fækki farþegum.

Mikið tap þegar samkeppni var í fluginu

Árni efaðist um að samkeppni á flugleiðinni yrði til þess að auka hagsæld neytenda þegar þegar uppi væri staðið. Hún var til staðar þegar Íslandsflug fór að flaug hana árin 1997-2000.

„Ég er ekki að tala gegn samkeppni, þetta er frjáls markaður. Ég veit samt ekki hvort slíkt væri vænlegt til lengri tíma. Það var áhugaverður tími þegar Íslandsflug flaug hingað, mikið af lágum fargjöldum og fjöldi farþega.

Samanlagt tap félaganna nam hins vegar 1,5 milljarði króna. Flugfélagið tapaði um 370 milljónum af tveggja milljarða veltu og hlutfallið var álíka hinum megin."

Hann bætti einnig við að rekstur Flugfélags Íslands væri í járnum. „Við erum ekki með hagnað en heldur ekki risatap og í okkar augum er þetta alveg ásættanlegt þótt hluthafarnir vildu auðvitað hagnað og arð."

Mikil fækkun fyrirsjáanleg með flutningi til Keflavíkur

Árni varaði líka sterklega við hugmyndum um að færa miðstöð innanlandsflugs frá Reykjavík til Keflavíkur.

„Við erum ekki á móti að hafa okkar aðalstöð í Keflavík," sagði Árni en benti á að kannanir bentu til að það yrði til að kippa fótunum undan fluginu með fækkun farþega. Þær benda til að 30% myndu ekki nota flugið væri það fært til Keflavíkur og 25% líklega ekki.

Hann gerði einnig aðstöðuskort á Reykjavíkurflugvelli að umtalsefni. Flugstöðin anni ekki þeim 324.000 farþegum sem um hana fari árlega og að auki skorti flughlöð. Flugfélagið reki sjö flugvélar en ekki sé svæði nema fyrir fjórar.

Hann sagði að deilur um framtíð flugvallarins yrðu að leysast með samkomulagi milli ríkis og borgar. Borgarstjórn geti ekki bara fjarlægt flugvöllinn úr skipulagi sínu eins og henni sýnist en aðalskipulag borgarinnar var nýverið stöðvað af ríkinu af þeim sökum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.