Páll Björgvin: Skólinn akkerið í byggð á Stöðvarfirði

thokusetur ibuafundur 0010 webPáll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir það hafa sýnt sig að mikilvægt sé að halda úti skóla á Stöðvarfirði. Það hafi verið grunnurinn að því að viðhalda byggð á staðnum. Bæjarbúar segja heilsárs atvinnu skorta á staðinn.

Þetta kom fram á íbúafundi sem haldinn var á Stöðvarfirði á miðvikudag. Í máli heimamanna kom fram að atvinnu vantaði á staðinn, einkum heilsárstörf. Ferðamennska hafi reynst vel en hún sé tímabundin.

Margir íbúar leiti út fyrir bæinn í vinnu, meðal annars í álverið á Reyðarfirði en séu þar með farnir að borga með sér.

Páll Björgvin sagði að sveitarfélagið úthlutaði byggðakvóta á tvo staði, annars vegar Stöðvarfjörð, hins vegar Mjóafjörð.

„Það hefur verið mikill tilkostnaður við að koma af stað fyrirtækjum. Það er rétt að byrja vinnsla hér en það hefur þurft að úthluta byggðakvótanum með þeirri tilslökun að hægt sé að vinna hann hvar sem er."

Þá hefur töluverð umferð verið um höfnina á Stöðvarfirði í tengslum við strandveiðar síðustu sumur og gagnrýnt að ekki hefði verið farið í framkvæmdir þar, líkt og í öðrum byggðarlögum í sveitarfélaginu.

Páll Björgin sagði að frá árinu 2010 hefði 60 milljónum króna verið varið til endurbóta á höfninni á Stöðvarfirði. Mikið væri undir hjá hafnarsjóði í framkvæmdum og sveitarfélaginu um leið um þessar mundir.

Þó sé verið að vinna í að hanna endurbætur á höfninni. Verkið verði væntanlega boðið út í haust og unnið árin 2015 og 2016.

Bæjarstjórinn lýsti þeirri skoðun sinni að mikilvægt væri að styðja við skóla í bænum. Það sé forsenda þess að ungar fjölskyldur vilji búa þar auk þess sem skólinn sé stærsti vinnustaður Stöðvarfjarðar.

Nokkur gagnrýni kom fram á forgangsröðun Fjarðabyggðar, til dæmis að ráðist væri í að helluleggja í kringum höfnina á Reyðarfirði á meðal framkvæmdir á Stöðvarfirði sætu á hakanum. Gangstéttir á Stöðvarfirði væru ekki einu sinni steyptar, þær væru bara þökulagðar.

Páll Björgvin svaraði því til að „uppsöfnuð þörf" væri í vinnu við göngustíga, lýsingu og þess háttar í sveitarfélaginu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.