Nágrannar leggjast gegn gististað: Nægur ami af þeirri starfsemi sem þegar er í hverfinu

strandgata14 nesk kh webNágrannar í grennd við Strandgötu 14 í Neskaupstað lögðust hugmyndum um að gamla bensínskálanum verði breytt í gististað. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð ákváðu þrátt fyrir athugasemdir í grenndarkynningu að leyfa starfsemina.

„Höfum nægan ama og truflanir af þeirri starfsemi sem þegar er í gangi í nágrenninu," segir í athugasemdum sem sjö af átta nágrönnum Strandgötu 14, sem áður hýsti bensínstöð Olís í Neskaupstað, undirrituðu í grenndarkynningu fyrir skemmstu.

Íbúarnir mótmæla frekari atvinnustarfsemi í nágrenninu og vilja ekki að gefið verði út rekstrarleyfi fyrir breyttri starfsemi á lóðinni.

Trölli ehf., sem einnig rekur Hótel Capitano, sótti um leyfi til að reka gistirými. Gert er ráð fyrir einhverjum breytingum á útliti hússins strax. Í bréfi Trölla til bæjaryfirvalda eru einnig viðraðar hugmyndir um mögulega stækkun hússins síðar enda sé lóðin 1800 fermetrar.

Nágrannarnir benda einnig á að ekki hafi verið farið í grenndarkynningu þegar byggð var upp olíuafgreiðsla fyrir Orkuna neðan við Strandgötuna fyrir nokkrum árum. „Höfum við talsvert ónæði af þeirri starfsemi og finnst ekki á bætandi," segir í bréfinu.

Bæjaryfirvöld ákváðu hins vegar að leyfa breytta starfsemi í gömlu Olísstöðinni. Í bókun er bent á að fordæmi séu fyrir sambærilegri starfsemi í íbúðahverfum annars staðar í sveitarfélaginu. Þær athugasemdir sem borist hafi gefi ekki tilefni til að hafna beiðninni.

Mynd: Kristin Hávarðsdóttir


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.