Stefna á að koma upp fiskvinnslu sem kaupi hráefni af heimabátum á Vopnafirði

vopnafjordurUnnið er að því að koma upp fiskvinnslu á Vopnafirði til að vinna ferskar urðir. Forsprakki hópsins segir mikla spurn eftir fiskafurðum á mörkuðum og samningar um sölu gangi vel. Stefnt er að því að vinnslan taki til starfa strax í janúar.

„Markmiðið er að koma upp fiskvinnslu sem getur unnið ferskar afurðir. Flök og aukaafurðir úr hefðbundnum fisktegundum sem bátar á Vopnafirði veiða auk þess að vinna grásleppu og salta hrognin," segir Finnbogi Vikar.

Finnbogi heimsótti fund hreppsnefndar fyrir skemmstu þegar rætt var um byggðakvóta. Í bókun nefndarinnar kemur fram að nefndarmenn hafi verið sammála um að æskilegt væri að koma upp fiskvinnslu á staðnum.

Ekki var þó talið hægt að móta reglur um úthlutun kvótans á þeim forsendum að fyrirhugað væri að stofna fiskvinnslu. Finnbogi og hans samstarfsmenn fá því frest til 20. janúar til að stofna vinnsluna og fá tilskilin leyfi. Eftir það verður tekin endanleg ákvörðun um úthlutun byggðakvóta Vopnafjarðarhrepps á fiskveiðiárinu.

Finnbogi segir fyrirtækið tilbúið að fara af stað strax á nýju ári. „Í janúar verður hafist handa við að setja upp harðfiskverkun í húsnæðinu. Þannig að vinnslan mun bæði vinna ferskar afurðir og þurrka í harðfisk. Langtímamarkmiðið er að koma líka upp frystingu fyrir afurðir og er þá helst verið að horfa til að frysta hluta afurða úr bolfiskinum og líka grásleppuna."

Þá er unnið að sölumálum en þau ganga vel að sögn Finnboga. „Fyrstu vikuna í janúar er ætlunin að ljúka samningum um sölu á afurðum en það lítur mjög vel út. Það er mikil eftirspurn eftir fiskafurðum.

Hann segir að vinnslan sækist fyrst og fremst eftir hráefni af heimabátum. Þó sé í skoðun að vera með eigin útgerð.

„Fiskvinnslan mun fyrst og fremst sækjast eftir hráefni eins og þorski, ýsu, steinbít, ufsa, skarkola og grásleppu af heimabátum á Vopnafirði. En það má skoða allt ef menn vilja samstarf. Ætlunin er að vera með útgerð samhliða fiskvinnslunni en þau mál munu skýrast í janúar."

Hann segist vonast eftir góðu samstarfi við heimamenn og að vinnslan skapi heilsársstörf í fiskvinnslu. Hann treysti sér ekki til að segja til um hve mörg þau á þessu stigi.

Á fiskveiðiárinu 2013/2014 eru alls til úthlutunar 325 þorskígildistonn í Vopnafjarðarhreppi.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.