Hagræðing í rekstri Seyðisfjarðar kom við flesta bæjarbúa

vilhjalmur jonsson sfk des13Aðgerðir til að snúa við rekstri Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa skilað árangri en voru sársaukafullar. Lítið svigrúm er til framkvæmda næstu árin á meðan skuldir sveitarfélagsins verða greiddar niður.

„Það er rétt að þetta hefur verið tekið úr vösunum hjá fólki og kom við allflesta bæjarbúa, einkum bæjarstarfsmenn. Þetta fólk á þakkir skildar en við værum að takast á við meiri vandamál ef við hefðum ekki gripið inn í," sagði Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri, á íbúafundi á mánudag þar sem fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2014 var kynnt.

Um mitt ár 2011 var gripið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða hjá sveitarfélaginu. Þær virðast hafa skilað árangri því afgangur varð af rekstri sveitarfélagsins í fyrra og ætti að verða aftur í ár.

Á næsta ári er reiknað með 113 milljóna afgangi af hreinum rekstri A og B hluta en hann minnkar niður í 32 milljónir þegar búið er að greiða af lánum. Viðsnúningnum var bæði náð með niðurskurði hjá bænum og hækkunum gjalda, svo sem leikskóla- og fasteignagjalda.

Fræðslu- og uppeldismál eru stærsti gjaldaliður sveitarfélagsins. Í málaflokkinn fara um 170 milljónir eða 43% af heildarútgjöldunum. Á næsta ári verða aukin útgjöld til skíðasvæðisins í Stafdal og knattspyrnuvallarins en ráðast þarf í framkvæmdir þar sem karlalið Hugins komst upp í aðra deild í sumar.

Vilhjálmur skýrði einnig frá því að útgjöld til félagsþjónustu væru að aukast, meðal annars vegna þess að beiðnum um fjárhagsaðstoð hefði fjölgað.

Eigið fé sveitarfélagsins er neikvætt um 48 milljónir króna en gert er ráð fyrir að hinni svokölluðu 150% reglu um skuldir sveitarfélaga verði náð árið 2017.

En á meðan skuldirnar eru lækkaðar er lítið svigrúm til framkvæmda. Framkvæmdirnar við íþróttavöllinn og frágang á höfninni verða fjármagnaðar af haldbæru fé.

„Það er áhyggjuefni ef við getum ekki farið í neinar framkvæmdir því þær skapa líka tekjur. Það eru verkefni sem við getum ekki beðið lengi með eins og við vatnsveituna," sagði Guðrún Katrín Árnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og óháðra sem sitja í minnihluta.

Vilhjálmur sagði að ef sveitarfélagið væri með „góðar fjárfestingar" væri annað hvort hægt að búa til félag utan um þær eða fá undanþágu hjá ráðuneyti til að fara fram yfir 150% regluna.

Hann sagði hallann á bæjarsjóði hafa átt sér nokkurn aðdraganda. Fólksfækkun og samdráttur í atvinnulífi hefðu smám saman leitt til hallareksturs. Eftir hrunið 2008 hefði verulega syrt í álinn.

Aðalmálið að hans mati er þó að styrkja atvinnulífið í bænum. „Við höfum ekki gefist upp á að leita að atvinnutækifærum og reynt að vekja athygli á staðnum. Það hafa komið til greina verkefni sem ekki hefur orðið af. Það hefur strandað á fjármagni. Það er erfitt að fá fjármagn í nýsköpun og sprotafyrirtæki og verulega sorfið að á síðustu þremur árum."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.