Mótmæla niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á Fáskrúðsfirði: Ætla að verja sjúkrabílinn

forseti faskrudsfjordur 0056 webForsvarsmenn Kaupfélags Fáskrúðsfirðingar, sem á bróðurpartinn í Loðnuvinnslunni, mótmæla harðlega miklum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á Fáskrúðsfirði. Bæjarfulltrúar segja ljóst um að verja þurfi þjónustuna á staðnum.

Í nýlegri ályktun stjórnar Kaupfélagsins er niðurskurðinum mótmælt og sagt að hann hafi leitt til „læknisskorts og brests í heilsugæslu" á staðnum. Minnt er á að áður hafi læknir verið búsettur á Fáskrúðsfirði sem einnig hafi þjónað Stöðvarfirði en svo sé ekki lengur.

„Nú er enginn læknir búsettur á Fáskrúðsfirði og lokað á heilsugæslustöðinni tvo virka daga í viku. Ekki er heldur hægt að fá nein lyf til afgreiðslu á staðnum en það breyttist í kjölfar minnkaðrar þjónustu heilsugæslustöðvarinnar."

Bent er á að skattgreiðslur Loðnuvinnslunnar og starfsmanna hennar nemi um hálfum milljarði króna á ári. Tryggt aðgengi að heilsugæslu skipti máli fyrir öryggi starfsmanna ef upp komi slys og það að fara yfir á Reyðarfjörð og Eskifjörð til læknis skapi fjarvistir og óþægindi.

Þá er varað við sparnaðarhugmyndum sem felist í að vera ekki með sjúkrabifreið staðsett á Fáskrúðsfirði.

„Mér finnst að við verðum að standa vörð um sjúkrabílinn. Það yrði skelfilegt fyrir viðbragðsflýti á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði ef hann færi," sagði Óskar Þór Hallgrímsson við umræður um ályktun stjórnar Kaupfélagsins í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í síðustu viku.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, sagði að samningur um sjúkraflutninga á milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Slökkviliðs Fjarðabyggðar, rynnu út um áramót. Verið væri að fara yfir samningana en engar ákvarðanir hefðu verið teknar um nýjan samning.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, lýsti áhyggjum sínum af stöðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Á hana væri í raun komin hagræðingarkrafa því fyrir lægi að uppsafnaður rekstrarvandi stofnunarinnar á þessu ári sé 60 milljónir króna.

Í fjáraukalögum er gert ráð fyrir 17,6 milljóna króna viðbótarframlagi til HSA til að standa undir jafnlaunaátaki. Í drögum að fjárlögum var ekki gert ráð fyrir hækkun krónutölu sem þýðir í raun skerðing á fjárframlögum út af verðbólgu.

Á fundi bæjarstjórnarinnar var ákveðið að óska þess að yfirmenn HSA kæmu til viðræðna við bæjarráð.

„Maður hélt að botninum væri náð í niðurskurðartillögum," sagði Jón Björn og Elvar Jónsson rifjaði upp að fyrrverandi velferðarráðherra hefði sagt að niðurskurði hjá HSA væri lokið. Tölurnar nú bendi ekki til þess. „Við þurfum greinilega að verjast allverulega."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.