Sterna: Aðgerðir SSA voru stjórnvaldshneyksli

sterna ruta webFramkvæmdastjóri hópferðafyrirtækisins Sternu segir fyrirtækið vera að undirbúa að krefjast skaðabótar af hálfu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi en sambandið fékk lögbann á akstur fyrirtækisins á milli Hafnar og Egilsstaða sumarið 2012. Lögbanninu var endanlega hnekkt með dómi Hæstaréttar fyrir helgi.

„Þetta hefur haft veruleg áhrif á rekstur okkar og afkomu. Við erum að skoða okkar rétt og meta það tjón sem við höfum orðið fyrir. Við förum eflaust fram á að fá þetta bætt, segir Óskar Stefánsson, framkvæmdastjóri Sternu.

Hæstiréttur staðfesti fyrir helgi dóm héraðsdóms Austurlands frá því í vor að hafna lögbanni sem SSA fékk hjá sýslumanninum á Höfn á akstur Sternu á leiðinni Höfn-Egilsstaðir-Höfn þann 18. júlí 2012.

SSA var þá nýkomið með einkaleyfi á að skipuleggja almenningssamgöngur í fjórðungnum og hafði, eftir útboð, samið við Hópbíla um akstur leiðarinnar. Sterna keyrði leiðina með sex viðkomustöðum og taldi SSA að þar með væri brotið gegn einkaleyfinu.

Dómarnir töldu hins vegar að þar sem Sterna seldi í hringferðir sem hægt var að fara út og inn á væri kerfið ekki opið og því ekki brotið gegn einkaleyfinu.

Óskar segir að áfram hafi verið haldið að fara með hringmiðafarþegana út sumarið 2012 og í sumar en þá var samið við SBA, sem ekur á milli Hafnar og Egilsstaða fyrir SSA, um að flytja farþegana þann legg.

„Við reyndum að paufast þetta af veikum mætti til að sjá hver niðurstaðan yrði. Hringmiðafarþegunum fækkaði niður úr öllu valdi, fóru úr 2000 í 1000 og við teljum þessar aðgerðir helstu orsökina fyrir því."

Óskar segir Sternu hafa boðist til að sjá um aksturinn fyrir SSA meðal annars með því skilyrði að þeirra tímatafla væri notuð. Á það hafi SSA ekki fallist en haldið fast í tillögur sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir sambandið í tengslum við útboðið.

„Þeir höfðu alla tíð tök á að nýta okkar þjónustu án kostnaðar. Þeir gátu sætt sig við okkar ferðir og þurftu ekki að bjóða aksturinn út og láta aðra hafa hann.

Þeir héldu að þeir gætu þvingað til sín farþega. Þetta mál er stjórnvaldshneyksli og algjört kaos af hálfu SSA."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.