Erling Brox: Það sem er gott fyrir nágrannann er líka gott fyrir okkur

erling brox webStafangur í Noregi hefur undanfarin ár byggst upp sem olíuhöfuðborg Noregs. Samvinna þeirra fjórtán sveitarfélaga sem mynda svæðið hefur byggt upp samkeppnishæft atvinnusvæði.

Þetta kom fram í erindi Erling Brox á atvinnumálaráðstefnunni Auðlindin Austurlands. Á svæðinu búa um 310.000 íbúar, litlu færri en á Íslandi og telst það þriðja stærsta byggðasvæði í Noregi.

Íbúar Stafangurs segja að það séu þeir sem skapi verðmætin og sendi fullt af peningum til höfuðborgarinnar Osló. „Þar hreyfa þeir bara pappíra," er viðkvæðið um höfuðborgarbúana.

Stafangur er þekkt fyrir víkinga, stafkirkjur og skipasmíði. Á sjöunda áratugnum var hins vegar svo komið að borgin var sú fátækasta í Noregi. Þeim tókst hins vegar að nýta sér uppsveiflu sem fylgdi olíulindum við Noreg en höfuðstöðvar ríkisolíufélagsins Statoil eru þar.

Árið 2011 var gjöfult fyrir svæðið því það ár fundust tvær risavaxnar olíulindir í sjónum skammt undan. Menn gera sér hins vegar grein fyrir að olíuævintýrið varir ekki endalaust og eru byrjaðir að undirbúa næstu skref.

Árið 2008 var stigið skref til þess að móta sameiginlega atvinnustefnu þeirra fjórtán sveitarfélaga sem mynda svæðið.

„Fyrirtæki og vinnuafl hugsa ekki eftir mörkum sveitarfélaga. Þau vilja sjá virk svæði. Stjórnmálamenn vilja hins vegar fyrst og fremst vinna fyrir sitt svæði.

Ef við látum eftir okkur að rífast innbyrðis um staðsetningar þá mun viðkomandi fyrirtæki þegar hafa opnað skrifstofur í Aberdeen þegar rykið er sest," sagði Erling. Á þessu hafi þó orðið breyting.

Í dag er stefnt að því að byggja Stafangur upp sem orkumiðstöð. Til þess þarf að afla reynslu og þekkingu á orkugjöfum framtíðarinnar. Áhersla hefur verið lögð á að laða erlenda sérfræðinga til svæðisins og byggja upp alþjóðlegar flugsamgöngur.

Stefnan er einnig að Stafangur sé besta svæðið fyrir nýsköpun og þróun sem að sögn Erlings hefur verið staðfest átta ár í röð.

Þessi stefnumótun er hluti af sameiginlegri viðskiptaáætlun sem samin var árið 2005. Hún er síðan endurskoðuð með vissu árabili. Byrjað var á að móta sameiginlega sýn þannig að allir vildu vera með.

„Það sem er gott fyrir grannann er líka gott fyrir okkur. Auðvitað eru líka einhverjir sem vilja meina að þeir fái ekki nóg fyrir peningana sína. Smærri sveitarfélögin á jaðrinum hafa efasemdir um að þau séu ekki að fá það út úr samstarfinu sem þau gætu. Þau eru ekki jafn beintengd olíuiðnaðinum. En þau kenna sjálfum sér um."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.