Sigmundur Davíð: Á Austurlandi getur myndast mótvægi við þungann á suðvesturhorninu

sigmundur david feb13Sjóflutningar um Norðurslóðir og olíuleit á Drekasvæðinu geta skapað ótal atvinnutækifæri á Austurlandi í nánustu framtíð. Hefja verður undirbúning strax ef takast á að nýta þau. Uppbygging samfélagsins skiptir þar ekki síst máli.

„Ég hef mikla trú á framtíð Íslands og hún byggist ekki síst á þeim risastóru tækifærum sem við erum hér að ræða," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á ráðstefnunni Auðlindin Austurland sem haldin var á Hallormsstað í síðustu viku.

Sigmundur sagði fulltrúa fjölda erlendra ríkja og fyrirtækja sýna mikinn áhuga á Íslandi út af staðsetningu landsins. Norðurslóðamál hefðu að frumkvæði verið aðalmálið á fundi hans og Barack Obama, Bandaríkjaforseta, þegar þeir hittust fyrr í haust. Sigmundur Davíð bætti því við að fundurinn hefði orðið frægur fyrir allt annað!

„Nú eru Íslendingar að kveikja á hversu stórt þetta er. Stjórnvöld munu gera það sem þau geta á næstu árum til að þoka þessum málum áfram."

Mun breyta öllu samfélaginu á Íslandi

Sigmundur Davíð spáði því að miklar breytingar myndu verða á bæði íslensku og austfirsku samfélagi. „Þetta myndi breyta öllu samfélaginu á Íslandi, ekki síst hér, til hins betra. Á Norður- og Austurlandi getur myndast mótvægi við þungann á suðvesturhorninu. Um leið kemst á betra jafnvægi á landinu."

Tækifærin felast annars vegar í þjónustu við olíuleit á Drekasvæðinu, hins vegar við fraktsiglingar um Norðurslóðir sem opnast með bráðnun íss á svæðinu. Olíuleitin ein og sér getur að mati Sigmundar Davíðs opnað Austfirðingum ýmsar dyr.

„Ef menn hafa trú á þessum verkefnum og ætla í undirbúningsvinnu þá hefur undirbúningurinn strax áhrif. Ef rannsóknir gefa til kynna að olía og gas séu á svæðinu í vinnanlegu mæli mun það eitt hafa áhrif á möguleika í fjárfestingu og uppbyggingu i´þessum landshluta," sagði Sigmundur og nefndi að fasteignaverð í fjórðungnum myndi hækka.

Líka samfélagsleg uppbygging

Hann vísaði einnig til Færeyja. Þótt ekki hafi fundist olía í þarlendri lögsögu hefur orðið mikil uppbygging í kringum leitina og eru Færeyingar til dæmis farnir að þjónusta olíuiðnaðinn í Noregi í miklu mæli.

Sigmundur vísaði einnig til þess að Grænlendingar byggju yfir miklum auðlindum sem þeir hefðu í hyggju að nýta. Báðar þessar þjóðir hefðu sýnt vilja til þess að vinna með Íslendingum umfram aðrar þjóðir.

Tæknilega uppbyggingin, svo sem stærri hafnir, er það sem skemmstan tíma tekur. Lengri tíma tekur að mennta fólk í viðkomandi greinum. „Það þarf að koma af stað þessari mikilvægu keðjuverkun. Við erum ekki bara að tala um tæknilegan undirbúning heldur líka samfélagslegan. Það er mikilvægt að mennta fólk í þessum greinum."

Sigmundur sagði að Íslendingar hefðu ástæðu til að vera bjartsýnir varðandi siglingarnar ekki síður en olíuleitina. Þróunin þar hefði verið hraðari en bjartsýnustu menn óraði fyrri og nú væri staðan sú að Kínverjar áætluðu að fyrir árið 2020 muni 15-20% þeirra vöruflutninga til Vesturlanda fara um norðausturleiðina.

Staðsetning landsins felur í sér forskot

Hann fullyrti að allir útreikningar sýndu að Ísland væri kjörpunktur á milli risamarkaðanna þriggja sem gefi Íslendingum ákveðið forskot. Þar hefur staðan breyst

„Áður var staðsetning landsins helsta hindrunin í útflutningi. Á þeim mánuðum sem ég hef verið forsætisráðherra hef ég hitt fulltrúa nokkurra erlendra fyrirtækja sem hafa áhuga á Íslandi sem útflutningsríki ekki síst vegna staðsetningar landsins."

Sigmundur Davíð lagði áherslu á að Austfirðingar yrðu að vinna saman í að styrkja innviðina. Þeir hefðu sýnt samvinnuvilja í verki, meðal annars með stofnun Austurbrúar.

„Með samvinnu hér á Austurlandi má nýta þessi tækifæri í þágu allra byggðarlaga. Það verður að huga sérstaklega að samvinnu innanlands, innan þeirra svæða þar sem starfsemin þessu tengd verður mest. Við í ríkisstjórninni munum vinna með ykkur að því að nýta tækifærin."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.