100 milljónir til uppbyggingar við Stuðlagil

Landeigendur og ábúendur við Stuðlagil á Jökuldal fá samanlagt yfir 100 milljónir til framkvæmda á svæðinu úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það er um helmingur þeirrar upphæðar sem sjóðurinn veitir til framkvæmda á Austurlandi í ár.

Tilkynnt var um úthlutun úr sjóðnum í dag. Styrkurinn í Stuðlagil er sá næst hæsti á landsvísu, aðeins Bolungarvíkurkaupstaður fær meira, 160 milljónir, til að gera útsýnispall á Bolafjalli.

Styrkurinn sem veittur er til Stuðlagilssvæðisins skiptist í tvennt. Annars vegar fær Jökuldalur slf. rúmar 80 milljónir til að setja upp stígakerfi og útsýnispall í gilinu auk þess að koma upp salernum og bæta bílastæði.

Hins vegar fær Marteinn Óli Aðalsteinsson, ábúandi í Klausturseli, rúmar 20 milljónir króna til að gera leggja tvo stíga um 2,6 km leið frá Stuðlafossi að Eyvindará við Stuðlagil. Annar stígurinn er ætlaður fyrir gangandi umferð. Að auki þarf að setja hólk í Fossá og göngubrú yfir Víðidalsá.

Í umsögn um verkefnin segir að þau stuðli að auknu öryggi og bætti umgengni á viðkæmi svæði sem orðið sé mikið aðdráttarafl í ferðamennsku.

Fuglaskoðun á Vopnafirði

Austurland má vel við una í úthlutunina í ár. Fjórðungurinn fær í sinn hlut um 200 milljónir eða 28% þess fjár sem úthlutað er, þrátt fyrir að hafa aðeins sótt um 13%.

Næsthæsti styrkurinn á svæðinu nemur 23 milljónum króna í annan áfanga fuglastígs á Norðausturlandi. Ætlað er að byggja fuglaskoðunarskýli á fjórum stöðum á svæðinu, þar á meðal við Nýpslón og Skipshólma í Vopnafirði. Að auki verða gerð skýli í Öxarfirði og á Langanesi.

Í umsögn segir að verkefnin byggi á sérstöðu Norðausturlands sem eins fjölbreytilegasta fuglaskoðunarhéraðs landsins. Með þeim séu sameinuð náttúruvæn ferðamennska og snjöll hönnun til að auka ferðamennsku á veiku svæði og á veikri árstíð.

Bætt öryggi við Hafrahvammagljúfur

Fljótsdalshérað fær 14,3 milljónir til að smíða útsýnispall við Hafrahvammagljúfur sem ætlað er að sporna við fallhættu á brún gljúfursins. Eins er áætlað að leggja stiga ofan í Hvammana sem bætir aðgengi gesta og sjúkraflutningafólk og auka fjölbreytni gönguleiðarinnar. Að auki þarf að setja stök þrep ofan í Hvömmunum þar sem nokkur hætta er á að gestir hrasi og gróður hefur raskast töluvert. Verkefnið þykir bæta öryggi ferðamanna til muna á stað þar sem skapast geta varasamar aðstæður. Ferðamannastað.

Ábúendur á Bragðavöllum í Hamarsfirði fá rúmar níu milljónir til að gera göngustíg að Snædalsfossi og Gömlubrú til að vernda viðkvæman mosagróður á svæðinu.

Gunnlaugur B. Ólafsson og Iceland Wellness fá 7,2 milljónir til að vinna að undirbúningi gönguleiðarinnar Austurstrætis, sem liggur frá Stafafelli í Lóni og yfir í Fljótsdal. Styrkurinn er veittur til að byggja upp göngubrýr yfir Víðidalsá og Hnappadalsá.

Göngustígar á Seyðisfirði og Víknaslóðir

Seyðisfjarðarkaupstaður fær styrk í tvö göngustígaverkefni. Annars vegar sjö milljónir til að gera göngustíga í Vestdal. Dalurinn er á náttúruminjaskrá en dalurinn hefur látið á sjá undan umferð síðustu ár.

Þá fær sveitarfélagið 3,4 milljónir til að hanna göngu- og hjólastíg frá bænum upp að Gufufossi. Mikil umferð er upp að fossinum þegar skemmtiferðaskip eru í höfn en það fólk notar þá þjóðveginn inn og út úr bænum sem göngustíg með tilheyrandi slysahættu.

Loks fær Ferðafélag Fljótsdalshéraðs 3,5 milljónir til að stika upp á nýtt þrjár leiðir í Stórurð og leiðina yfir Gönguskarð. Á svæðinu þarf einnig að setja upp vegvísa og göngubrýr og flytja leiðir þar sem náttúran er farin að láta verulega á sjá á sumum stöðum. Skilti verða einnig sett upp í Stórurð, eitt við hverja inngönguleið í Urðina sem sýnir hringleiðina í urðinni til að fólk fari ekki að ganga utan stíga.

Sex verkefni úr landsáætlun

Þessu til viðbótar fá staðir á Austurlandi 115 milljóna úr landsáætlun 2020-2022 um uppbyggingu innviða til verndunar náttúru og menningarsögulegum minjum. Meira en helmingur þeirrar upphæðar, 60 milljónir króna er veitt til uppbyggingar þjónustuhúss að Teigarhorni í Berufirði á vegum Umhverfisstofnunar.

Lagfæring á göngubrú og þurrsalerni á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs við Krepputungu fær 26,5 milljónir, Fljótsdalshreppur fær 10 milljónir í annan áfanga stækkunar bílastæða við Hengifoss og viðhald göngustíga.

Þjóðminjasafn Íslands fær 9,3 milljónir til að gera bílastæði, göngustíg, girðingu og merkingar við torfbæinn að Galtastöðum fram í Hróarstungu. Minjastofnun Íslands fær sex milljónir til að lagfæra hleðslur og koma upp merkingum við Fjárborg í Mjóafirði. Að lokum fær Umhverfisstofnun þrjár milljónir til að gera tröppur, göngustíga og merkingar við Blábjörg í Berufirði, sem eru ný á landsáætluninni.

Mynd: Sigurður Aðalsteinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.