Reglur um vaktstöðu í brú ítrekaðar eftir strand Akrafells

Forstjóri Samskipa segir að hafi farið verið yfir öryggisreglur á skipum félagsins eftir að Akrafellið strandaði í mynni Reyðarfjarðar fyrir tæpum þremur árum. Sofandi stýrimaður var talin vera aðalástæðan fyrir strandinu.


„Í kjölfar strands Akrafells var farið yfir þær reglur og verklag sem gilda um vaktstöðu í brú og notkun viðvörunarkerfa og þær ítrekaðar,“ segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa í svari við fyrirspurn Austurfréttar.

Austurfrétt spurðist fyrir um hvernig hefði verið brugðist við niðurstöðum skýrslu Rannsóknarnefnda samgönguslysa um strandið hjá Samskipum.

Í skýrslunni segir að aðalástæða strandsins hafi verið að stýrimaðurinn hafi sofnað. Gagnrýnt er að hann hafi verið einn á vakt í brú og öryggiskerfi þar ekki virkjuð.

Í svari sínu segir Pálmar Óli að mikið sé lagt upp úr öryggismálum hjá Samskipum, hvort sem er á landi eða til sjós á þeim um það bil 30 skipum sem séu í þjónustu fyrirtækisins á hverjum tíma.

„Kröfur varðandi skip í millilandasiglingum markast í grundvallaratriðum af alþjóðlegum samþykktum og reglum fánaríkis viðkomandi skips. Samskip leggja metnað sinn í að ofangreindum reglum sé fylgt í hvívetna

Hluti af ofangreindum reglum eru kröfur um öryggismönnun skipa sem fánaríki setur. Í tilviki Akrafells miðuðust þessar kröfur við 11 manna áhöfn. Þegar atvikið átti sér stað voru 13 manns í áhöfn skipsins. Þau skip sem nú sigla á siglingaleið Akrafellsins eru einnig með 13 manna áhöfn.“

Akrafell var skráð á Kýpur þegar slysið varð. Í skýrslu Rannsóknanefndarinnar er bent á að engar alþjóðlegar reglur séu til um vaktstöðu í brú eða notkun öryggistækja þar.

Eins er gerðar athugasemdir við mönnun skipsins. Þótt þrettán hafi verið í áhöfn hafi aðeins einn verið í brúnni þótt verklag um borð í skipinu gerði ráð fyrir tveimur. Skipstjórinn hafði fækkað í brúnni til að hvíla skipverja eftir mikla vinnu meðan skipið var í höfn við ferma og afferma það. Stýrimaðurinn hafði einnig tekið þátt í þeirri vinnu og bar því við að hún hefði enn frekar raskað hvíldartíma hans.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.