Of fáir á vakt í brúnni þegar Akrafellið strandaði

Fleiri en einn hefðu átt að vera á vakt í brú flutningaskipsins Akrafells þegar það strandaði við Vattarnes, yst í Reyðarfirði, haustið 2014. Viðvörunarkerfi í brúnni voru heldur ekki í gangi. Aðalorsökin er samt að stýrimaður sofnaði á vakt.


Þetta kemur fram í lokaskýrslu Rannsóknarnefnda samgönguslysa um strandið.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að alorsök strandsins sé að stýrimaður, sem var einn á vakt, hafi sofnað. Athugasemd er gerð við að hann hafi verið einn á vaktinni þegar gert sé ráð fyrir tveimur í verklagi skipsins.

Þessu hafi skipstjórinn breytt til að hvíla áhöfnina eftir mikla vinnu meðan skipið var í höfn. Haft er eftir stýrimanninum að hann hafi gert athugasemdir við að skipið væri undirmannað.

Lítið getað hvílst

Stýrimaðurinn segist ekki hafa sofnað en hann hafi verið annars hugar strandið varð vegna þreytu. Hann hafi lítið hvílst síðustu þrjá dagana fyrir strandið, og reyndar undanfarna viku, af persónulegum ástæðum.

Hann vann tvær fjögurra tíma vaktir á sólarhring auk óljóss tíma þegar skipið var í höfn við fermingu og affermingu. Stýrimaðurinn ber því við að það fyrirkomulag hafi haft mikil áhrif á hvíld hans.

Í skýrslu nefndarinnar er einnig komið inn á að ekki hafi verið kveikt á öryggisbúnaði í brúnni sem hjálpað hefði getað stýrimanninum. Bent er á að hvorki séu til lög um mönnun í brúnni né notkun þessara tækja. Þá er það einnig niðurstaða nefndarinnar að lúga við vélarými hafi ekki verið nógu vel lokuð sem jók enn á vandann þegar vatn flæddi inn í skipið.

Kallað eftir aðstoð tuttugu mínútum eftir strandið

Akrafell, skip Samskipa, var á leið frá Akureyri til Reyðarfjarðar að morgni 6. september þegar það strandaði við sker sem ber heitið Bakur yst í sunnanverðum Reyðarfirði.

Skipið breytti um stefnu tíu mínútur í fjögur úti fyrir Gerpi eftir að stýrimaðurinn hafði stýrt því örugglega framhjá Seley. Það hefði síðan átt að taka aðra beygju inn Reyðarfjörð en sigldi í staðinn þvert yfir fjarðarminnið og strandaði fjörutíu rétt fyrir hálf fimm. Rúmum tuttugu mínútum síðar kallaði skipstjórinn eftir aðstoð.

Fram kemur í skýrslunni að strax eftir strandið hafi sjór flætt inn í vélarrúmið þannig að fljótlega þurfti að drepa á aðalvél skipsins. Skömmu síðar þurfti einnig að slökkva á varaafli.

Tíu björgunarmenn veiktust

Köfurum tókst að þétta skipið og var það á flóði um miðnætti dregið af strandstað til Eskifjarðar af Aðalsteini Jónssyni. Það var úrskurðað ónýtt og geymt á Reyðarfirði um veturinn áður en það var dregið úr landi og selt í brotajárn.

Tíu björgunarmenn sem unnu við erfiðar aðstæður í vélarrýminu þurftu að leita læknisaðstoðar vegna eitrunar af gufum þar inni. Þeir hafa allir náð sér að fullu.

Kannað var hvort einhver í áhöfninni hefði verið undir áhrifum áfengis þegar skipið strandaði en svo reyndist ekki vera.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.