Fyrsta loðnulöndunin í þrjú ár

Um helgina landaði grænlenska skipið Polar Amaroq tæplega 700 tonnum af frystri loðnu á Eskifirði. Starfsmenn Tandrabergs ehf. hófu löndunina snemma um morguninn og lauk henni um kvöldið. Þessi loðnulöndun markar tímamót því hún er sú fyrsta hér á landi í tæplega þrjú ár.
 

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarinnslunnar. Þar segir að Polar Amaroq fékk aflann í hinu svonefnda trollhólfi austur af landinu. Aflinn fékkst að mestu í þremur holum en fyrsta holið var tekið í mjög slæmu veðri og gaf einungis 20-30 tonn. Loðnan sem veiddist var hin fallegasta og voru um það bil 40 stk. í kílóinu. Nokkur áta var í loðnunni.
 
„Skipstjóri á Polar Amaroq í veiðiferðinni var Sigurður Grétar Guðmundsson og segir hann það afar góða tilfinningu að vera farinn að veiða loðnu á ný,“ segir á vefsíðunni.
 
„Polar Amaroq hélt á ný til veiða strax að löndun lokinni. Þegar haft var samband við skipið í morgun var það búið að taka eitt 300 tonna hol og var unnið að frystingu um borð af fullum krafti.“

Mynd: Facebooksíða löndunarfyrirtækisins Tandrabergs

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.