Yfirlýsing vegna umræðu í samfélaginu og atviks
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 12. september 2025
Vegna atviks sem átti sér stað í vikunni og umræðu í samfélaginu undanfarna daga þykir Múlaþingi mikilvægt að koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:
Sveitarfélög eru bundin því að framfylgja settum lögum og reglum, til dæmis við úthlutun íbúða í þeirra eigu, út frá þeim forsendum sem lögin tilgreina að heimilt sé að hafa til hliðsjónar, og einvörðungu þeim forsendum.
Ekki má mismuna fólki út frá geðþótta eða persónulegum skoðunum. Eigi að vinna slíkt öðruvísi þarf að breyta þeim lögum og reglum. Lögum er breytt á Alþingi, ekki á sveitarstjórnarstigi eða skrifstofum sveitarfélaga. Reglum er svo hægt að breyta í kjölfar lagabreytinga.
Mikilvægt er að hafa í huga að við búum í réttarríki þar sem fólk fær dóm og tekur hann út, að honum liðnum hefur sama fólk tilverurétt og þarf að geta aðlagast samfélaginu á ný. Félagsþjónustan veitir ákveðna þjónustu sem styður við fólk í viðkvæmri stöðu og eru einstaklingar sem hafa tekið út dóm hluti af þeim hópi.
Við búum í samfélagi þar sem unnið er út frá því að fólk eigi afturkvæmt út í samfélagið eftir að það hefur tekið út sinn dóm og snýst málið hér einmitt um það, ekki að halda hlífiskyldi yfir ákveðnum brotum.
Sveitarfélagið fordæmir hvers kyns ofbeldi
Það er ástæða fyrir því að einstaklingar eru ekki nafngreindir í ákveðnum dómum hjá dómstólum. Það snýr gjarnan að því að verja fórnarlömb í málunum. Því er það alvarlegt mál að einstaklingar, jafnvel undir nafnleynd sjálfir, taki það að sér að birta nöfn og myndir af þessum einstaklingum.
Umræðan undanfarið undirstrikar þá miklu ábyrgð sem uppalendur, kennarar og aðrir, sem hafa áhrif á börn og ungt fólk, hafa þegar kemur að fræðslu. Mikilvægt er að eiga opið og virkt samtal við börnin okkar því hætturnar geta leynst víða.
Málið hefur nú tekið þá stefnu að vera orðið harmleikur hér í nærsamfélaginu vegna atviks sem átti sér stað í vikunni. Því er nauðsynlegt að leggja áherslu á mikilvægi þess að fólk taki ekki málin í sínar hendur heldur tali við viðeigandi yfirvöld, til dæmis lögreglu, hafi það áhyggjur. Við skiljum uppnám og áhyggjur en málin verða hvorki leyst með ofbeldi né óvarkárri umræðu á samfélagsmiðlum.
Þessa dagana er gulur september þar sem vakin er athygli á geðheilbrigði. Hafa skyldi í huga að aðgát skal höfð í nærveru sálar og hér á það við gagnvart mörgum aðilum sem koma að málunum á ólíkan hátt, beint og óbeint. Fátt er geðheilbrigði mikilvægara en fræðsla, samhygð og skilningur. Fátt eitraðara en fordómar og dómharka. „Enginn veit hvað undir annars stakki býr.“
Vilji fólk kynna sér þær reglur og lög sem þarf að hafa í huga við úthlutun félagslegs húsnæðis þá er hægt að lesa sér til um það hér:
• Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga
• Reglur Múlaþings um úthlutun félagslegs húsnæðis
Hvert á að leita eftir aðstoð?
Hafi fólk áhyggjur eða ef það eða einhver nákomin þeim verður fyrir einhvers konar broti af hálfu annars aðila eða þarf að koma áleiðis tilkynningu er hægt að hafa samband við lögregluna í síma 112. Ef ekki er um neyð að ræða er hægt að hafa samband við lögregluna á svæðinu í síma 444 0600 eða með tölvupósti í netfangið
Þurfi einstaklingar læknisþjónustu skal haft samband við heilbrigðisstofnunina í þeim kjarna sem hentar og er þá best að hringja í viðkomandi starfsstöð, í þessum tengli má finna símanúmer þeirra.
Vanlíðan, ótti og áhyggjur geta birst á margan hátt og viljum við benda á upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar sem svarar í síma 1700 utan dagvinnutíma fyrir þá sem finna fyrir þessum tilfinningum.
Aflið veitir ráðgjöf til þolenda ofbeldis og aðstandenda þeirra, heimasíðuna þeirra má finna hér, þar er hægt að bóka sér tíma sem og í síma 461 5959.
Píeta samtökin sinna meðferðarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Samtökin hafa aðsetur á Reyðarfirði. Hægt er að hafa samband við þau í gegnum netfangið
Bjarmahlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og veitir stuðning, ráðgjöf og fræðslu um eðli og afleiðingar þess. Netfang hennar er
Þá er hjálparsími Rauða krossins 1717.