VR-félagar, nýtið atkvæðisréttinn!
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 06. mars 2025
Nú í vor eru liðin 65 ár síðan verslunarmannafélag Reyðarfjarðar- og Egilsstaðakauptúns var stofnað, sem síðar varð að Verslunarmannafélagi Austurlands. Starfsemi félagsins tók stakkaskiptum þegar fyrst var opnuð skrifstofa árið 1982 en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar hvað varðar þjónustu stéttarfélaga við félagsfólk sitt.
Smám saman jókst krafa félaga í Verslunarmannafélagi Austurlands um þjónustu sem væri sambærileg þeirri sem verslunarfólk naut annars staðar og var þá ekki síst horft til Reykjavíkur. Þetta var drifkrafturinn í sameiningu Verslunarmannafélags Austurlands og VR árið 2008, en þá þegar hafði VR sameinast öðrum félögum og þar með hætt að vera bundið við Reykjavík.
Ákvörðun um sameiningu var tekin að undangengnu miklu samráði og í fullri einingu á félagsfundi VFA og hefur hún almennt verið talin vel heppnuð. Lykilþáttur í sameiningu VFA og VR var að áfram yrði skrifstofa á Egilsstöðum sem þjónustar félagsfólk á Austurlandi. Enda er það oft svo að þegar sameiningar landsbyggðareininga við höfuðborgarsvæðið eru annars vegar þá er fyrirferð höfuðborgarsvæðisins æði mikil. Einnig er starfrækt sérstök deild VR á Austurlandi sem er kjörin til að gæta hagsmuna félagsfólks á svæðinu.
Formaður alls félagsfólks
VR er stærsta og öflugasta stéttarfélag landsins og er eitt þeirra félaga sem kýs sér forystu með beinni persónukosningu. Fram undan er slík kosning og með þessu greinarkorni vil ég hvetja VR félaga á Austurlandi til að kynna sér frambjóðendur til bæði formanns og stjórnar og nýta sinn atkvæðisrétt. Sjálf gef ég kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður, en ég tók við því embætti nýverið þegar forveri minn gaf kost á sér í Alþingiskosningum.
Mér er mikið í mun að vera formaður allra VR-félaga og horfi ég þar meðal annars til hins stóra félagssvæðis VR og þeirra ólíku aðstæðna sem fólk býr við í mismunandi landshlutum. Ég legg áherslu á að viðhalda öflugri þjónustu á Austurlandi, en einnig að formaður láti sig staðbundin mál sem tengjast kjörum félagsfólks varða. Nú þegar hef ég lagt leið mína austur til að mótmæla hækkun leikskólagjalda í Fjarðabyggð, þar sem gjöld fullvinnandi fólks fyrir leikskólapláss hafa hækkað um tugi prósenta. Áttum við þar í samstarfi við forystu AFLs – starfsgreinafélags, enda varðar málið þorra launafólks á svæðinu. Mótmæli okkar og foreldra urðu til þess að gjald fyrir svokallaða skráningardaga var lækkað, en eftir standa þó miklar hækkanir sem jafnframt eru í trássi við það samkomulag sem gert var í tengslum við kjarasamninga.
Kosningar fram undan
Hljóti ég brautargengi til að starfa áfram sem formaður VR mun ég leggja mig fram um að sinna Austurlandi til jafns á við önnur svæði VR. Ég geri ráð fyrir að hafa reglulega viðveru á Austurlandi og sækja heim vinnustaði sem VR félagar starfa á. Enn fremur stendur fyrir dyrum stefnumótun um skipulag félagsins, sem er orðið æði stórt, og tel ég mikilvægt að aðkoma vinnandi fólks á Austurlandi að þeirri stefnumótun sé tryggð.
Ég hvet VR félaga á Austurlandi til að nýta kosningarétt sinn í félaginu og kjósa bæði formann og stjórnarfólk. Rafrænar kosningar fara fram 6. til 13. mars nk. Allar nánari upplýsingar má finna á vef VR, vr.is, og á minni síðu, halla.is.
Formaður VR og frambjóðandi í formannskosningum sem fram fara 6. til 13. mars nk.