Vor sífrandi þjóð

Ég hef verið að hugsa um eldana sem geisað hafa í Ástralíu undanfarið og þau hundruð manna sem hafa farist í þeim. Um að á stórum svæðum álfunnar hefur ekki rignt í næstum áratug og sjálfsmorðstíðni bænda þar er geigvænleg. Um hin endalausu stríð í mörgum Afríkuríkjanna þar sem saklaust fólk er notað í vélbyssufóður, konum er nauðgað linnulítið og börn skikkuð í hernað og þeim bókstaflega hent þegar þau verða viti sínu fjær af ofbeldi, fíkniefnum og geðveiki. Um stríðsátök í Palestínu, Suður-Ameríku og víðar. Um þorstann og hungrið og sjúkdómana sem brytja fólk niður um gjörvalla veröld.

  

Og svo erum það við. Með okkar búsáhaldabyltingu og botnlausar skuldir.

Sífrum eins og sísvangir kettlingar.

Vissulega eigum við fyrir höndum ærin verkefni við að koma landinu á réttan kjöl og ekki verður dregið í efa að margir landa minna hafa það svo skítt að þeir eiga ekki fyrir fæði né klæði. Æ fleiri bætast nú í þann hóp. Við erum sannarlega í vondum málum.

  

Mér finnst samt, svo ég segi það nú hreint út, að um leið og við leitum hins rétta meðalhófs og mannvirðingar í okkar dæmalausa míkrósamfélagi, ættum við að muna hvað við höfum það ansi gott velflest. Hversu möguleikarnir á að skapa okkur gott og staðfast samfélag sem hlúir að öllum sínum þegnum eru miklir. Að framtíðarsýn okkar getur byggst á því að við búum í auðugu landi, fjarri firringu stríðsátaka og hreinni eymd. Ef við högum okkur af forsjálni og mátulegri dirfsku gagnvart auðlindum lands og þjóðar mun eyjan okkar í framtíðinni verða eitt dýrmætasta svæði jarðar hvað til dæmis vatnsforða snertir.

  

Við erum satt að segja ótrúlega heppin að vera við og hér. Það er í öllu falli snöggtum skárra hlutskipti en að vera þeir og þar. Alveg hreinu uppi með það að halda.

 

Steinunn Ásmundsdóttir

(Leiðari Austurgluggans 12. febrúar sl.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.