Skip to main content

Við Píratar heyrum í ykkur Seyðfirðingum

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.29. nóvember 2024

143 Seyðfirðingar kalla eftir áheyrn í aðsendri grein í Austurfrétt nú fyrir kosningar og það er tími til kominn að stjórnmálamenn leggi við hlustir. Í máli Seyðfirðinganna kemur fram að þau hafi hrópað hátt í baráttu sinni gegn sjókvíaeldi í firðinum. Þau hafi fyllst baráttuhug þegar skoðanakönnun á vegum Múlaþings sýndi ótvíræða andstöðu meirihluta íbúa fjarðarins, eða 75 prósent, gegn sjókvíaeldi. En þegar hvorki meirihluti Múlaþings né þingheimur hafi hlustað, þá hafi það grafið undan trausti þeirra á lýðræðið.


„Vilji meirihluta heimamanna hefur verið skýr hvað varðar fyrirhugað sjókvíaeldi í firðinum. Við sögðum, segjum og munum segja, NEI TAKK! Við höfum sent inn sannreyndan undirskriftalista, við höfum gert athugasemdir við strandsvæðaskipulag og bent á ýmsa ágalla er snúa að innviðum samfélagsins og þjóðarinnar. Við höfum endurtekið ítrekað við hlutaðeigandi stofnanir ríkisins, mikilvægi þess að öryggi vegna ofanflóðahættu, siglinga og fjarskipta sé haft að leiðarljósi - fremur en sérhagsmunir eins fyrirtækis,“ skrifa Seyðfirðingar.

Verðum að taka hugrakka afstöðu – og standa með fólkinu og náttúrunni


Við Píratar höfum lengi stutt Seyðfirðinga og tekið skýra afstöðu í þessum málaflokki því við teljum nauðsynlegt að leyfa náttúrunni að njóta vafans og við teljum einnig að óskir heimamanna eigi að vera virtar – þeir eigi að ráða. Sá skaði sem nú þegar er orðinn af völdum eldis í opnum kvíum á Íslandi er óafturkræfur og gæti orðið enn meiri. Því verða stjórnmálamenn að taka afgerandi afstöðu og standa með náttúrunni og landsbyggðinni.

Í stefnu Pírata segir að til að vernda íslenskan laxastofn og koma í veg fyrir frekar mengun og eyðileggingu sjávarríkisins þurfi að banna opið sjókvíaeldi því fiskeldi í opnum sjókvíum hafi gríðarlega mengandi áhrif og slæmar afleiðingar fyrir náttúruna, lífríki sjávar og vistkerfið í heild sinni. Ekki er deilt um skaðleg áhrif sjókvíaeldis á umhverfið, þau liggja fyrir.

Erfðablandaður lax hefur fundist víða, til að mynda í Blönduá, Laxá í Aðaldal, Hofsá í Vopnafirði og víðs vegar um Vestfirði og Norðvesturland. Þegar eldislax sleppur er nánast ógerningur að ná honum áður en hann gengur í ár og blandast villtum stofni. En umhverfisáhrifin af sjókvíaeldi eru mun víðtækari en einungis erfðablöndun. Þar má nefna úrgang á borð við míkróplast úr fóðurröri – leifar sem verða eftir í sjónum og menga mikið.

Heimamenn hitta naglann á höfuðið


Í ákalli Seyðfirðinga segir að ný atvinnutækifæri þurfi að vera sjálfbær og skapandi, byggja bæði á verkviti og hugviti og vera fjölbreytt og metnaðarfull. Þau þurfi að spretta af áhuga og reynslu íbúa og vera á forsendum samfélagsins til framtíðar. Efla þurfi nýsköpun og styðja við það frumkvæði sem fyrir er. Það sé mikilvægt að fækka ekki opinberum störfum heldur bæta við og fjölga störfum án staðsetningar og auka hvata fyrirtækja til að flytja störf á landsbyggðina.

Þarna hitta Seyðfirðingar naglann á höfuðið. Við Íslendingar þurfum að byggja upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í sjávarplássum, með áherslu á frumkvæði íbúa og á forsendum þeirra. Píratar vilja tryggja atvinnuöryggi með margskonar hætti á svæðum sem eiga undir högg að sækja á landsbyggðinni og leggjum við sérstaka áherslu á að efla græna atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og aðrar lausnir til frambúðar.

Við Píratar ætlum einnig að draga úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast. Við viljum leyfa fólki að taka þátt í ákvörðunum sem varða það beint. Þetta á ekki síst við um nærsamfélagið þar sem fólk á heima. Þetta á við um Seyðfirðinga og teljum við þá best til þess fallna að taka ákvarðanir um hvernig uppbyggingu þeir vilja í sinni heimabyggð. Við viljum að byggðir landsins blómstri en til þess þarf pólitískan vilja – og aðgerðir. Þar gefum við ekkert eftir!

Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi.